Vinnustofa vegna vaxtarklasaverkefnis

október 27, 2014
Vinnustofa vegna vaxtarklasaverkefnis í Bogarbyggð var haldin á Bifröst síðastliðinn fimmtudag. Verkefnið er samstarfsverkefni Háskólans á Bifröst, sveitarfélagsins og fyrirtækja á svæðinu.
Á stofunni voru kynnt ýmis vaxtarverkefni í Borgarbyggð og ljóst að mörg spennandi og áhugaverð verkefni eru í deiglunni. Á vinnustofunni var farið yfir niðurstöðu vinnu síðustu mánuða á vegum skólans en rætt var við fjölda aðila vegna verkefnisins. Þá var bent á ýmis verkefni sem enginn er að vinna að og þarf að beina í réttan farveg. Flest vaxtarverkefnin eru í ferðaþjónustu en ennfremur eru ýmis verkefni tengd matvælavinnslu og almennri þjónustu.
Miklar umræður fóru fram um verkefnin og ýmsar hugmyndir voru reifaðar. Skýrt kom fram að fjölmörg ónýtt tækifæri eru til uppbyggingar í Borgarbyggð. Mikið var rætt um nauðsyn þess að menn vinni saman og nýti þá stoðþjónustu sem í boði er. Á næstu vikum mun koma í ljós hvort sérstakur vaxtaklasi verður að veruleika þar sem stofnað er til formlegs samstarfs í kringum einstök vaxtarverkefni.
Það voru starfsmenn Háskólans á Bifröst, Jón Bjarni Steinsson og Hallur Jónasson sem unnu verkefnið undir leiðsögn verkefnisstjórnar á vegum Hákólans á Bifröst og Borgarbyggðar.
 
Á myndinn eru frá vinstri: Jón Bjarni Steinsson, Kolfinna Jóhannesdóttir sveitarstjóri, Sigurður Ragnarsson sviðsstjóri viðskiptasviðs, Vilhjálmur Egilsson rektor og Hallur Jónasson.
 
 

Share: