Viðburðadagatal og skráning viðburða

janúar 8, 2018
Featured image for “Viðburðadagatal og skráning viðburða”

Enda þótt árið um kring sé yfirleitt mikið að gerast í menningarstarfsemi innan Borgarbyggðar þá er ætíð einna mest um að vera á fyrstu mánuðum ársins. Söngskemmtanir, leikrit, þorrablót, góugleði, spilakvöld, menningarkvöld, fyrirlestrar o.s.frv. o.s.frv. eru um allt héraðið. Það er því ekki auðvelt að fá yfirsýn yfir allt hið fjölbreytta menningarstarf í héraðinu. Því vill ýmislegt renna framhjá í erli dagsins. Mikil þægindi væru að því fyrir áhugasama að geta fengið á einum stað þokkalega gott yfirlit um það sem er að gerast í hinu öfluga menningarlífi í sveitarfélaginu. Á heimasíðu Borgarbyggðar er auðvelt að verkja athygli á þeim viðburðum sem eru framundan hverju sinni. Neðarlega á forsíðunni er yfirlit um það sem er „Á döfinni“. Þar er tengill sem heitir „Skrá viðburð“. Þar er hægt á einfaldan hátt að skrá menningarviðburði í héraðinu svo þeir sem nota síðuna geti á einum stað fengið greinargott yfirlit um það sem er að gerast í hinu fjölbreytta og öfluga menningarlífi í Borgarbyggð. Þeir sem standa fyrir menningarviðburðum hverju nafni sem þeir nefnast eru hvattir til að notfæra sér þennan möguleika.

Ennfremur að ef hakað er í reitinn “Skessuhorn” þá birtist viðburðurinn ennfremur á vef blaðsins og í prentaðri útgáfu þess.

Með menningarkveðju

Sveitarstjóri


Share: