Glæsilegur árangur hjá Guðrúnu Helgu

janúar 9, 2018
Featured image for “Glæsilegur árangur hjá Guðrúnu Helgu”

Fjölmenni mætti þegar málverkasýning Guðrúnar Helgu Andrésdóttur var opnuð í Safnahúsinu s.l. laugardag. Einnig seldust nánast öll verkin á opnunardaginn.  Er þetta fágætur árangur hjá myndlistarmanni á fyrstu einkasýningu.

Guðrún Helga býr í Borgarnesi og á ættir að rekja í uppsveitir Borgarfjarðar og til Suður-Þingeyjarsýslu; dóttir Þorgerðar Kolbeinsdóttur frá Stóra-Ási og Andrésar Kristjánssonar ritstjóra. Hún hefur lagt stund á myndlist um margra ára skeið en ekki verið með einkasýningu áður.

Á sýningunni eru bæði vatnslita- og olíumyndir, flestar málaðar á árinu 2017. Eru þær flestar af stöðum sem Guðrún tengist á einhvern hátt eða hefur komið á. Með það í huga nefnir hún sýninguna „Staðir allt um kring.“

Meðal myndefna eru átta bæir í Hálsasveit sem voru í Stóra-Ás kirkjusókn áður en hún var lögð niður og færð til Reykholts. Einnig sýnir Guðrún Helga myndir af Hafnarfjalli og Skarðsheiði, Borgarnesi, Fagraskógarfjalli og Hítardal auk Aðalvíkur og fleiri staða.

Sýningin stendur til 2. mars og er opin 13.00 – 18.00 virka daga.  Aðgangur er ókeypis.

Ljósmynd: Guðrún Helga við opnun sýningarinnar.

Guðrún Jónsdóttir, forstöðumaður


Share: