Verklok í Hlíðartúni

október 27, 2009
Framkvæmdum við Hlíðartúnshús í Borgarnesi er nú lokið að sinni en leitað verður leiða til að halda verkefninu áfram á næsta ári. Byrjað var með uppmælingu og niðurrifi verst förnu húsanna í ágúst s.l., en þau voru komin í fokhættu. Þau verða endurbyggð síðar, en til að byrja með hefur hluti vegghleðslu undir eitt þeirra verið endurhlaðinn og því verki verður haldið áfram næsta sumar. Það er Unnsteinn Elíasson hleðslumaður sem vinnur verkið, en hann hefur um árabil sérhæft sig í hleðsluvinnu og verk hans prýða Borgarnes víðar, t.d. má sjá vandað handbragð hans á framhlið Skallagrímsgarðs.
Það sem unnið hefur verið við Hlíðartúnshúsin í sumar var gert með aðstoð Húsaverndunarsjóðs auk þess sem hluti verksins var unninn sem atvinnuátaksverkefni. Það er Safnahús Borgarfjarðar sem hefur haft frumkvæði að þessu verkefni í samvinnu við framkvæmdasvið Borgarbyggðar sem hefur alla umsjón með framkvæmdum.

Hlíðartúnshúsin eru gömul útihús sem standa á holtinu vestan við Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi og hafa verið aðdráttarafl fyrir ferðamenn undanfarna áratugi.
Fyrst og fremst eru þau minjar um búsetumótun í Borgarnesi þar sem þeir íbúar sem ekki voru verslunarmenn voru bændur og fluttu búskap sinn að hluta með sér inn í þéttbýlið.

Þess má einnig geta að heimildasöfnun um búskap í Borgarnesi á upphafsáratugum byggðar þar verður hluti af húsakönnun sem framkvæmdasvið lætur vinna á næstu mánuðum og er það verkefni einnig styrkt af Húsaverndunarsjóði. Heimildir þessar verða m.a. hluti af skipulagskerfi bæjarins þar sem grjótgarðar og aðrar minjar verða staðsettar með GPS punktum og merktar inn á skipulagsuppdrætti. Þannig er komið í veg fyrir að þessar minjar eyðileggist að óþörfu.

Á meðf. mynd má sjá Unnstein Elíasson við vegginn sem búið er að hlaða. Ljósmynd: Kristján Finnur Kristjánsson.
 

Share: