Verkefnið Sögur og Samfélög

október 10, 2001

Borgarbyggð er í forsvari fyrir verkefnið Sögur og Samfélög (Sagas and Societies). Verkefnið fjallar um sagnaritun og sagnagerð fyrri tíma, hvernig hún mótaðist af umhverfi sínu og hvernig hún mótaði aftur umhverfi sitt, jafnvel öldum saman. Markmiðið er að draga saman fræðimenn margra landa til að fá fram dýpri skilning á samspili sagnanna og þeirra samfélaga sem skópu þær og varðveittu allt fram til nútímans.

Með í verkefninu eru samstarfaðildar frá Þýskalandi og Eistlandi en aðrir samstarfaðilar eru Safnahús Borgarfjarðar, Snorrastofa í Reykholti og Reykjavíkur Akademían. Verkefnið hefst 1. nóvember n.k. og stendur í eitt ár. Efni og framgangur skiptist í eftirfarandi fjóra hluta:

· Fjölþjóðlegt rannsóknarverkefni þar sem viðfangsefnið er sögur fyrri alda sem þjóðfélagslegt fyrirbæri. Undirbúningur og rannsóknir fara fram í löndunum þremur.
· Ráðstefna í Borgarnesi dagana 8. – 12. ágúst 2002 þar sem gert er ráð fyrir a.m.k. 100 fræði- og vísindamönnum víða að. Í tengslum við ráðstefnuna verða settar upp sýningar og menningarviðburðir tengdir Egilssögu.
· Útgáfa vefsíðu verkefnisins.
· Útgáfa ráðstefnurits.

Það sem gerir Borgarbyggð kleift að ráðast í þetta verkefni er að Evrópusambandið hefur samþykkt að veita því framlag allt að 8 milljónir króna gegnum styrkjakerfi Culture 2000. Verkefnisstjóri verður dr. Ólína Þorvarðardóttir og framkvæmdastjóri Þorvarður Árnason náttúrufræðingur. Auk þeirra koma margir aðilar að undirbúningi og framkvæmd verkefnisins.
Nokkur nýlunda er að farið sé út í svo viðamikið viðfangsefni á þessu sviði af hálfu Borgarbyggðar. Það er til vitnis um aukna áherslu á menningartengda starfsemi en í Borgarfirði er að finna sterka tengingu við menningu og bókmenntir fyrri alda. Vonir standa til að þetta verkefni verði liður í að virkja sagnagerð fyrri alda og menningararfinn til eflingar menningarstarfsemi og ferðaþjónustu í héraðinu. Þess má geta að samhliða þessu verkefni er Borgarbyggð að láta þróa og útfæra hugmyndir um stofnun í minningu Egils Skallagrímssonar.

Nánari upplýsingar: Ásthildur Magnúsdóttir forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs sími 437-1224, netfang: asthildur@borgarbyggd.is


Share: