Vel heppnað vinabæjamót

júní 26, 2007
Gestir frá norrænum vinabæjum Borgarbyggðar sóttu sveitarfélagið heim á fjölmennu vinabæjamóti um helgina. Um 120 manns komu frá eftirtöldum bæjum: Falkenberg í Svíþjóð, Ullensaker í Noregi, Odsherred Kommune í Danmörku og Leirvík í Færeyjum. Vinabæjamótið var haldið sömu helgina og Sparisjóðsmótið í fótbolta og af því tilefni kom einnig á staðinn fótboltalið frá Ullensaker ásamt þjálfurum sínum.
Blíðskaparveður var alla helgina svo gestir gátu notið fjölbreyttra dagskrárliða mótsins við bestu aðstæður. Meðal þess sem gert var má nefna að á Mið-Fossum var horft á hestasýningu, í Reykholti var hlýtt á fróðleik um staðinn og Páll Guðmundsson og Viðar Guðmundsson léku á steinhörpu Páls. Á laugardagskvöldinu var hátíðarkvöldverður með menningardagskrá á Hótel Borgarnesi. Á sunnudag var dvalið í Borgarnesi og að lokinni norrænni hátíðarmessu í Borgarneskirkju var m.a. farið í Landnámssetur og á sýninguna um Pourquoi-pas? strandið í Englendingavík. Mótsslit voru svo í Skallagrímsgarði síðdegis á sunnudag. Leiðsögumenn á vinabæjamóti voru Bjarni Guðmundsson, Finnbogi Rögnvaldsson og Páll Brynjarsson.
Framkvæmd mótsins gekk í alla staði mjög vel, með samstilltu átaki fjölmargra íbúa í Borgarbyggð sem annað hvort tóku til sín norræna gesti eða sinntu öðrum störfum sem til féllu vegna mótsins. Skipulagningu önnuðust Inga Dóra Halldórsdóttir, formaður Norræna félagsins í Borgarfirði og Guðrún Jónsdóttir, menningarfulltrúi. Indriði Jósafatsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi annaðist skipulag á móttöku norska fótboltaliðsins en Aðalsteinn Símonarson sá um framkvæmdaþætti hvað það varðaði með aðstoð Sigurþórs Kristjánssonar umsjónarmanns félagsmiðstöðvarinnar Óðals. Sigurþór annaðist einnig öll tæknimál á vinabæjamótinu og hafði umsjón með vinnuskóla um helgina.
 
Athugið að með því að smella á myndina opnast myndamappa með fjölda mynda. Myndasmiðir eru Inga Dóra Halldórsdóttir, Indriði Jósafatsson og fleiri.

Share: