Vel heppnuð helgi að baki í Borgarbyggð

júlí 12, 2021
Featured image for “Vel heppnuð helgi að baki í Borgarbyggð”

Það má sem sanni segja sl. helgi hafi verið viðburðarrík hér í Borgarbyggð. Hinsegin hátíð Vesturlands fór fram í fyrsta skipti og Fjórðungsmót hestamanna 2021 var haldið með pompi og prakt. Ljóst er að gleðin var við völd á báðum hátíðum og það var margt um manninn alla helgina. Hátíðarnar heppnuðust vel og veðurguðirnir voru okkur hliðhollir þessa helgi. Það sést á þessum hátíðum hvað einstaklingsframtakið og gott samstarf getur skilað sveitarfélaginu frábærum viðburðum sem lífga upp á mannlífið.

Gleði og litadýrð einkenndu mannfjöldann í Borgarnes á laugardaginn þegar Hinsegin hátíðin og gleðigangan fór fram. Vel var staðið að hátíðinni og eru skipuleggjendum hátíðarinnar færðar þakkir fyrir sitt framlag. Það er nauðsynlegt að vekja athygli á málstaðnum og er sveitarfélagið þakklát þeim viðtökum sem málefnið fékk hjá íbúum Borgarbyggðar. Borgarbyggð var stoltur stuðningsaðili hátíðarinnar og tóku starfsmenn sveitarfélagins m.a. þátt í göngunni og stofnanirnar flögguðu hinsegin fánanum í tilefni hátíðarinnar.

Fjórðungsmót hestamanna heppnaðist einkum vel en um var að ræða fimm daga veislu fyrir hestaunnendur. Mótið fór fram á svæði Borgfirðings í Borgarnesi og keppt var í fjölmörgum greinum. Skemmtileg stemmning myndaðist svo á kvöldvökum í Reiðhöllinni Faxaborg. Það var vel mætt á mótið og er mótsnefndinni þakkað fyrir gott skipulag og metnaðarfulla dagskrá.

 

 

 


Share: