Vel heppnaður Einkunnadagur 2021

ágúst 27, 2021
Featured image for “Vel heppnaður Einkunnadagur 2021”

Fólkvangurinn í Einkunnum nýtur mikilla vinsælda meðal íbúa og gesta í Borgarbyggð og vinsældir hans eru alltaf að aukast.

Laugardaginn 21. ágúst sl. var blásið til Einkunnadagsins 2021 sem var samstarfsverkefni umsjónarnefndar fólkvangsins í Einkunnum, Ferðafélags Borgarfjarðar og Skógræktarfélags Borgarfjarðar.

Markmiðið með þessum degi var að ganga í og ljúka ýmsum verkefnum sem voru orðin aðkallandi í fólkvanginum, t.d. stika gönguleiðina milli Einkunna og Borgar, grisja gróður, lagfæra og smíða brýr og lagfæra stíga.

Um þrjátíu manns mættu á staðinn og það er skemmst frá því að segja að þátttaka og afköst voru framar öllum væntingum.

Umsjónarnefnd Einkunna f.h. Borgarbyggðar, þakkar af heilum hug samstarfsaðilum sem gerðu þennan dag að veruleika, þ.e. Ferðafélag Borgarfjarðarhéraðs sem dreif verkefnið áfram með miklum krafti og kom að undirbúningi og framkvæmd, Skógræktarfélagið sem sá um undirbúning og verkstjórn, Geirabakarí sem gaf veitingar og síðast en alls ekki síst allir þeir sjálfboðaliðar sem mættu á staðinn og létu hendur heldur betur standa fram úr ermum.

Það er ómetanlegt að hafa svona drifkraft og svona öflugt fólk í samfélaginu okkar.

 


Share: