Veisla til heiðurs sæmdarhjónum

febrúar 21, 2008
Í gærkvöldi var haldið samæti í Fossatúni til heiðurs þeim sæmdarhjónum, Ólafi K. Guðmundssyni og Herdísi Jónsdóttur, oftast kennd við Hrossholt í Eyja- og Miklaholtshreppi. Tilefnið var annars vegar að þakka Ólafi fyrir vel unnin störf sem byggingarfulltrúi og hins vegar er verið að leggja niður byggðasamlag um byggingarfulltrúa.
Ólafur hóf störf sem byggingar- og skipulagsfulltrúi á Snæfellsnesi árið 1980 og starfaði á tímabili fyrir öll sveitarfélögin þar fyrir utan Stykkishólm. Síðar stækkaði starfssvæðið og náði yfir dreifbýli Mýra- og Borgarfjarðarsýslu.
Herdís gerðist fljótlega starfsmaður embættisins og unnu þau hjón farsællega í þessum málaflokki fram á árið 2006 eða þar til þau náðu löggiltum eftirlaunaaldri.
Um 50 manns, sveitarstjórnarfulltrúar og samstarfsfólk voru mætt í Fossatúni til að fagna og þakka þeim hjónum fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum.
 
Myndir með frétt tók Helgi Helgason.

Share: