Úrbætur í fráveitumálum í Borgarnesi

mars 2, 2007
Hreinsistöð
Miklar úrbætur verða gerðar í fráveitumálum Borgarness á næstu árum. Við lok framkvæmda árið 2009 mun dagleg losun um núverandi útrásir bæjarins heyra sögunni til, hreinsistöð í Brákarey verða tekin í notkun og mikilli uppbyggingu á ræsum og dælustöðvum verða lokið. Hér er um að ræða gjörbyltingu í umhverfismálum bæjarins.
Þann 1. janúar 2006 tók Orkuveita Reykjavíkur við rekstri og uppbyggingu Fráveitu Borgarbyggðar. Jafnframt skuldbatt Orkuveitan sig til þess að ljúka úrbótum í fráveitumálum sveitarfélagsins í samræmi við kröfur í lögum og reglugerðum sem um fráveitumál fjalla. Til þess að uppfylla þessar kröfur í Borgarnesi þarf að reisa hreinsistöð (sjá mynd) og hætta losun skólps um stuttar útrásir í fjöru eins og nú er gert, t.d. í Garðavík, við Bjargsland og Böðvarsgötu.
Ákveðið hefur verið að hreinsistöð bæjarins skuli staðsett í Brákarey og verður sú framkvæmd hluti af uppbyggingu smábátahafnar í eynni. Frá hreinsistöðinni verður hreinsuðu skólpi dælt um 800 metra á haf út þar sem náttúran sér um að þynna, brjóta niður og eyða þeim efnum sem ekki hreinsast í stöðinni. Lengd útrásarinnar og staðsetning enda hennar er ákvörðuð í kjölfar ítarlegra rannsókna og útreikninga þannig að tryggt sé að fjörur bæjarins verði lausar við skólpmengun.
Núverandi dælustöð á Brúartorgi verður fjarlægð og ný stöð byggð á umferðareyju framan við torgið. Mun þetta mannvirki verða alfarið neðanjarðar. Sama gildir um dælustöð í Garðavík og fjölda dælubrunna sem nauðsynlegir eru til þess að veita megi skólpinu sem nú fer um útrásir til hreinsistöðvar. Hreinsistöð, dælustöðvar og dælubrunnar verða fjarvöktuð af Kerfisstjórn Orkuveitunnar.
Auk þessa er unnið að sambærilegum úrbótum í fráveitumálum á Bifröst, Hvanneyri, Varmalandi og í Reykholti.
Nánari upplýsingar verða settar inn í næstu viku.
Á vef Orkuveitu Reykjavíkur má sækja fróðleik um fráveituna: http://www.or.is/Forsida/Fraveitan/
 

Share: