Unnið að rannsókn á áhrifum Covid-19 faraldursins á leikskólastarf

júní 16, 2020
Featured image for “Unnið að rannsókn á áhrifum Covid-19 faraldursins á leikskólastarf”

Kristín Gísladóttir leikskólastjóri Ugluklettar hlaut styrk úr Rannsóknarsjóði Kennarasambands Íslands að upphæð kr. 700.000 til að vinna að lokaverkefni sínu í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst.

Alls hlutu sex verkefni styrk þetta árið en alls bárust 27 umsóknir í sjóðinn. Heildarupphæð umsókna var um 30 milljónir kr. en til úthlutunar eru fimm milljónir kr. Markmið sjóðsins er að veita styrki til rannsókna sem styðja við skólastarf og dagleg störf félagsmanna Kennarasambands Íslands í skólum, þróa nýja fræðiþekkingu sem félagsmenn KÍ hafa þörf fyrir og stuðla að auknum gæðum í skólastarfi.

Megintilgangur rannsóknarinnar er að skrá og skoða hvernig leikskólastjórar mæta skyldum sínum á tíma heimsfaraldurs Covid-19. Athugað verður hvernig leikskólastjórar, sem faglegir leiðtogar leikskóla takast á við erfiða tíma og hvaða eiginleikar og stjórnunarstíll nýtast best á slíkum tímum. Að auki verður metið hvaða áhrif Covid-19 heimsfaraldurinn hefur haft á leikskólastarf til frambúðar. Leiðbeinandi Kristínar er dr. Sigrún Gunnarsdóttir, dósent við Háskólann á Bifröst.

 


Share: