Stjórn Ungmennafélags Íslands ákvað á fundi sínum í gær að úthluta 13. Unglingalandsmóti UMFÍ til Ungmennasambands Borgarfjarðar. Mótið fer fram um verslunarmannahelgina í sumar. Unglingalandsmót hefur aldrei áður verið haldið í Borgarnesi en landsmót var haldið þar 1997.
Fimm aðilar sóttu um að halda mótið, Ungmennasamband Borgarfjarðar, UMSB, Ungmennasamband Vestur-Skaftafellssýslu, USVS, Héraðssambandið Skarphéðinn, HSK, Héraðssamband Þingeyinga, HSÞ, Ungmennafélag Akureyrar, UFA, Ungmennasamband Eyjarfjarðar, UMSE, sóttu í sameiningu um að halda mótið.
Á stjórnarfundi UMFÍ sem haldinn var 5. desember lá fram bréf frá HSH um að mótið færi fram í Grundarfirði og Stykkishólmi. Stjórn UMFÍ féllst ekki á það og var ákveðið að auglýsa eftir nýjum mótshaldara.
Stjórn UMFÍ leitaði til sambandsaðila og þeim gefinn kostur á að taka að sér framkvæmd unglingalandsmótsins í sumar
,,Það var samdóma niðurstaða stjórnar UMFÍ að mótið yrði í Borgarnesi m.a. vegna þess að mótið hefur aldrei áður verið þar haldið. Ennfremur er öll aðstaða til fyrirmyndar í Borgarnesi. Okkur hlakkar mikið til að vinna með Borgnesingum að undirbúningi mótsins,” sagði Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður UMFÍ. (Af vefsíðu UMFÍ)