Umhverfisviðurkenningar Borgarbyggðar 2021

október 22, 2021
Featured image for “Umhverfisviðurkenningar Borgarbyggðar 2021”

Á fundi umhverfis-og landbúnaðarnefndar þann 21. október s.l voru veittar viðurkenningar fyrir umhverfismál í sveitarfélaginu. Kallað var eftir tilnefningum íbúa og var frestu til að senda inn tilnefningar til 31. ágúst.

Það var ánægjulegt að sjá hversu margir voru tilbúnir að benda á það jákvæða sem gert er í umhverfismálum í Borgarbyggð.

Eftirfarandi aðilar fengu viðurkenningu árið 2021:

1. Falleg lóð við íbúðarhús

Í þessum flokki eru það íbúar að Borgarvík 5 í Borgarnesi sem hljóta þá viðurkenningu, þau Bjarni Þór Traustason og Sigrún Ögn Sigurðardóttir.

Í niðurstöðu dómnefndar segir að lóðin sé einstaklega falleg og snyrtileg og öllu vel við haldið. Greinilegt er að mikil vinna og natni er lögð í viðhald húss og lóðar. Gróður er fjölbreyttur; trjágróður, fjölæringar og sumarblóm. Heildarsvipur lóðar góður.

2. Snyrtileg lóð við atvinnuhúsnæði

Í þessum flokki er það Bjarg í Borgarnesi sem hlýtur þá viðurkenningu, þau Þorsteinn Arilíusson og Heiður Hörn Hjartardóttir.

Í niðurstöðu dómnefndar segir að allt umhverfi gistiheimilisins Bjargs sé snyrtilegt, gróðri vel við haldið og tún slegin. Náttúrufegurð á svæðinu og snyrtilegt umhverfi eykur á jákvæða upplifun gesta.

3. Snyrtilegt bændabýli

Í þessum flokki er það Brekkka í Norðurárdal sem hlýtur þá viðurkenningu, þau Elvar Ólason og Þórhildur Þorsteinsdóttir.

Þar segir í niðurstöðu dómnefndar að býlið sé myndarlegt og byggingum sem eru ólíkar að aldri sé vel við haldið. Hlaðnir túngarðar grípa augað og eru þeir merki um óslitinn þráð búskaparsögu um langan tíma. Auðséð er að búið er í fullum rekstri þar sem ýmis tæki þar að lútandi eru vel sýnileg. Umgengni snyrtileg.

4. Samfélagsviðurkenning umhverfis- og landbúnaðarnefndar vegna umhverfismála

Í ár hlýtur Sigurbjörg Ólafsdóttir þessa viðurkenningu.

Í niðurstöðu dómnefndar segir að Sigurbjörg hafi hreinsað trjábeð meðfram Berugötunni upp á sitt einsdæmi. Trén voru að hverfa í grasi og torfi og því mikil vinna sem hún lagði á sig óumbeðin til að fegra sitt nærumhverfi. Hún hreinsaði beðið meðfram allri götunni (utan lóðamarka) og í samstarfi við sveitarfélagið er nú búið að snyrta tré og skipta um girðingu og ásýnd götunnar hefur batnað til muna.

Borgarbyggð óskar vinningshöfum innilega til hamingju.

 

 

 


Share: