Trúnó – tónleikar á Bifröst

febrúar 23, 2009
S.l. haust kom út geisladiskurinn TRÚNÓ og hefur að geyma tólf lög Tómasar R. Einarssonar í flutningi söngvaranna Ragnheiðar Gröndal og Mugisons. Þau fjalla um ást og einsemd, timburmenn og tilvist guðs. Skáldin sem leggja Tómasi lið eru Ingibjörg Haraldsdóttir (Nú eru aðrir tímar, Sumarkvöld við Hvalfjörð), Vilborg Dagbjartsdóttir (Þú), Kristín Svava Tómasdóttir (Klof vega menn, Náungar mínir), Sveinbjörn I. Baldvinsson (Örljóð langþreytta drykkjumannsins, Vor), Steinn Steinarr (Veglaust haf) og Halldór Laxness (Hjarta mitt), auk þess sem Tómas á sjálfur þrjá texta (Stolin stef, Alls óvænt, Morgunn).
Kontrabassaleikarinn Tómas, gítarleikarinn Ómar Guðjónsson og trommuleikarinn Matthías MD Hemstock munu flytja lögin af TRÚNÓ ásamt söngkonunni Ragnheiði Gröndal á Bifröst miðvikudaginn 25. febrúar kl. 17.00. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.(fréttatilkynning)
Lögin eru flest ný en elsta lag Tómasar, Stolin stef, er þó að finna á disknum, í sameiginlegum flutningi þeirra Ragnheiðar Gröndal og Mugisons. Lagið er til í ýmsum útgáfum en þetta er í fyrsta sinn sem Tómas hljóðritar það sungið.
Tómas og félagar fluttu lögin í stappaðri Fríkirkju á Jazzhátíð Reykjavíkur í ágúst s.l. og meðal gesta þar var blaðamaðurinn Christoph Giese, á vegum þýska djasstímaritsins Jazzthetik, og hann skrifaði um tónleikana: ,,Eitt best heppnaða atriði hátíðarinnar voru tónleikar Tómasar R. Einarssonar með söngkonunni Ragnheiði Gröndal. Tómas fléttaði… bóleróa og önnur lög í latíntakti í persónulegri útsetningu, saman við heillandi rödd Ragnheiðar Gröndal sem söng á íslensku um ást og timburmenn. Þetta er kynleg blanda en virkaði undursamlega vel.” (Jazzthetik, nr. 10, 2008). Trúnó hlaut einnig lofsamlega dóma í íslenskum blöðum: “Flott plata, borin uppi af góðum söng og lifandi hljóðfæraleik.” (Trausti Júlíusson, Fréttablaðið 22.12.2008). “Þessar bóleróballöður Tómasar eru ævintýralega fallegar.” (Vernharður Linnet, Morgunblaðið 26.11.2008)

Share: