
Kontrabassaleikarinn Tómas, gítarleikarinn Ómar Guðjónsson og trommuleikarinn Matthías MD Hemstock munu flytja lögin af TRÚNÓ ásamt söngkonunni Ragnheiði Gröndal á Bifröst miðvikudaginn 25. febrúar kl. 17.00. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.(fréttatilkynning)
Lögin eru flest ný en elsta lag Tómasar, Stolin stef, er þó að finna á disknum, í sameiginlegum flutningi þeirra Ragnheiðar Gröndal og Mugisons. Lagið er til í ýmsum útgáfum en þetta er í fyrsta sinn sem Tómas hljóðritar það sungið.
Tómas og félagar fluttu lögin í stappaðri Fríkirkju á Jazzhátíð Reykjavíkur í ágúst s.l. og meðal gesta þar var blaðamaðurinn Christoph Giese, á vegum þýska djasstímaritsins Jazzthetik, og hann skrifaði um tónleikana: ,,Eitt best heppnaða atriði hátíðarinnar voru tónleikar Tómasar R. Einarssonar með söngkonunni Ragnheiði Gröndal. Tómas fléttaði… bóleróa og önnur lög í latíntakti í persónulegri útsetningu, saman við heillandi rödd Ragnheiðar Gröndal sem söng á íslensku um ást og timburmenn. Þetta er kynleg blanda en virkaði undursamlega vel.” (Jazzthetik, nr. 10, 2008). Trúnó hlaut einnig lofsamlega dóma í íslenskum blöðum: “Flott plata, borin uppi af góðum söng og lifandi hljóðfæraleik.” (Trausti Júlíusson, Fréttablaðið 22.12.2008). “Þessar bóleróballöður Tómasar eru ævintýralega fallegar.” (Vernharður Linnet, Morgunblaðið 26.11.2008)