Tónlistarskólinn fær heimsókn frá Álftanesi

apríl 26, 2007
Tónlistarfólk að loknum tónleikum
Um helgina fær Tónlistarskóli Borgarfjarðar góða heimsókn. Um 40 nemendur frá Tónlistarskóla Álftaness koma í Borgarfjörðinn og halda tónleikar í Logalandi í Reykholtsdal laugardaginn 28. apríl. Tónleikarnir hefjast kl. 15:00 og auk gestanna leika nemendur frá Tónlistarskóla Borgarfjarðar á tónleikunum og síðan verður samspil þar sem nemendur beggja skólanna leika nokkur létt lög.
Eftir tónleikana verður boðið upp á kaffiveitingar og eru allir velkomnir á tónleikana.
 
Það er mikið líf í starfsemi skólans þessar vikurnar. Fyrir stuttu fóru nemendur að Bifröst og héldu tónleika í Hriflu. Þetta voru aðallega fiðlunemendur og einn píanónemandi var með, nemendur Ewu Tosik og Zsuzsönnu Budai. Tónleikarnir í Hriflu tókust vel og glöddu hljóðfæraleikararnir, sem voru allt niður í 5 ára, áhorfendur með leik sínum. Til stendur að að endurtaka leikinn næsta vetur og þá fara aðrir hljóðfærahópar.
Ljósmynd: Theodóra Þorsteinsdóttir

Share: