Síðastliðinn föstudag fagnaði Tónlistarskóli Borgarfjarðar 45 ára afmæli. Tónlistarkólinn tók til starfa haustið 1967 og var Jón Þ. Björnsson fyrsti skólastjóri skólans. Í upphafi störfuðu fjórir kennarar og um 40 nemendur stunduðu nám við skólann. Í dag starfa ellefu kennarar við skólann og eru nemendur 170. Kennt er á fjórum stöðum í héraðinu, í húsnæði skólans í Borgarnesi og einnig eru útibú á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Núverandi skólastjóri er Theodóra Þorsteinsdóttir.
Ýmislegt var til gamans gert á afmælisdaginn. Skólinn var með opið hús og fluttu nemendur og kennarar fjölbreytta tónlist, meðal annars var klarinettuleikur, gítarleikur, leikið sexhent á píanó og sungið. Söngkennararnir Alexandra og Theodóra slógu á létta strengi og sungu saman dúetta og fóru á kostum í Músettuvalsinum eftir Puccini. Dagurinn heppnaðist vel, fjöldi gesta kíktu við og var gestum og gangandi var boðið upp á kaffi og meðlæti sem rann ljúft niður með skemmtilegum tónum.
Myndina tók Olgeir helgi Ragnarsson af söngdífunum Alexöndru og Theodóru bregða á leik. Jónína Erna við píanóið.