Almannavarnanefnd Vesturlands kom saman fyrr í mánuðinum ásamt sóttvarnalæknum HVE.
Eftirfarandi tilmæli almannavarnanefndar voru samþykkt á fundinum:
„Í ljósi fjölgunar Covid-19 smita undanfarið í samfélaginu, áréttar almannavarnanefnd Vesturlands þau tilmæli sóttvarnayfirvalda að fólk hugi sérstaklega að því að mæta ekki til vinnu eða í skóla ef það finnur fyrir einkennum eða það grunar að það sé með smit. Þetta á jafnt við þau sem eru bólusett og þau sem eru það ekki.
Ef þú finnur fyrir einkennum er mikilvægt að halda sig heima og skrá sig í COVID PCR-próf í samræmi við leiðbeiningar á covid.is. Þetta á jafnt við börn sem fullorðna. Eins og áður er mikilvægt að huga vel að eigin sóttvörnum, svo sem þvo og spritta hendur og virða nálægðarmörkin.“
Borgarbyggð hvetur íbúa til þess að huga vel að einstaklingsbundnum smitvörnum, sem er öflugasta vörnin við veirunni. Mikilvægt er að þvo sér um hendurnar reglulega, spritta, halda tveggja metra fjarlægð og halda sig heima ef einkenni gera vart við sig líkt og kemur fram hér fyrir ofan.
Ef það leikur grunur á smiti skal strax hafa samband við heilsugæsluna í gegnum síma, við netspjall Heilsuveru.is eða við Læknavaktina í síma 1700. Heilbrigðisstarfsfólk ráðleggur ykkur um næstu skref.