Til gæludýraeigenda í Borgarbyggð

júlí 24, 2013
Kæru gæludýraeigendur
Samkvæmt samþykkt Borgarbyggðar um hunda- og kattahald er skylt að skrá öll dýr þeirra tegunda í sveitarfélaginu að undanskildum þeim dýrum sem eru utan þéttbýlis á lögbýlum. Þetta á ekki að koma neinum á óvart því sendar hafa verið út tilkynningar að minnsta kosti tvisvar á ári til að minna á þetta. Skráning er forsenda þess að Borgarbyggð geti staðið við lagalegar skyldur sínar varðandi eftirlit með gæludýrahaldi. Við skráningu er greitt lágt árlegt gjald, sem ætlað er að mæta hluta af kostnaði við eftirlit. Auk þess eru tryggingar, merkingar og lögbundin árleg ormahreinun innifalin í gjaldinu ofl.
Lausaganga hunda er með öllu óheimil utan lögbýla í Borgarbyggð og eigendum er skylt að þrifa upp saur eftir hunda sína.
Eigendur óskráðra hunda og katta á þéttbýlisstöðum Borgarbyggðar eru beðnir að skrá dýrin sín nú þegar. Árgjaldið er 11.700 kr. fyrir hunda og 5.950 kr. fyrir ketti og mun lækka að raungildi eftir því sem fleiri dýr koma á skrá. Það er því réttlætismál gagnvart þeim gæludýraeigendum sem hafa skráð sín dýr að allir hunda- og kattaeigendur taki þátt í að greiða þann kostnað sem af gæludýraeftirlitinu hlýst. Gæludýraeigendur eru hvattir til að kynna sér lög og reglur um gæludýrahald á heimasíðu Borgarbyggðar undir hreinlætismál http://www.borgarbyggd.is/starfsemi/hreinlaetismal/
Eyðublöð er hægt að nálgast á skrifstofu Borgarbyggðar og á heimasíðunni.
Undanfarnar vikur hefur starfsmaður sem ráðinn er til tímabundinna verkefna hjá Borgarbyggð hringt í gæludýraeigendur sem enn hafa ekki sinnt því að skrá dýr sín eins og reglur gera ráð fyrir. Hann mun halda því starfi áfram næstu vikurnar og af gefnu tilefni eru þeir sem upphringingu fá beðnir um að sýna starfsmanninum kurteisi.
 
Björg Gunnarsdóttir
Umhverfis- og landabúnaðarfulltrúi.

Share: