Þjóðahátíð var haldin í Hjálmakletti á sunnudaginn. Nemendur í þriðja bekk Grunnskólans í Borgarnesi voru meðal þeirra sem þar komu fram.Krakkarnir sungu tvö lög, „Zimska pesma“ sem er serbneskt lag um veturinn og „Meistari Jakob“ á sex tungumálum; íslensku, serbnesku, spænsku, tagalog, dönsku og ensku. Nemendur bekkjarins eiga einhver tengsl við lönd þar sem þessi tungumál eru töluð, annað hvort vegna uppruna eða búsetu.
Undanfarnar vikur hafa umsjónarkennari krakkanna, Kristín Einarsdóttir og kennari þeirra í tónlist og leiklist Margrét Jóhannsdóttir, séð um æfingar fyrir hátíðina en aðstoð hefur komið víðar að. Serbnesk móðir í bekknum, Vesna Pavlovic aðstoðaði við að fá textann við vetrarlagið og Maria Socorro Grönfeldt, kennari við skólann aðstoðaði við framburð á tagalog sem er filipiskt mál. Krakkarnir fengu góðar viðtökur og stóðu sig með mestu prýði.