
Degi íslenskrar tungu verður fagnað í Safnahúsi Borgarfjarðar á morgun með fyrirlestri Heiðars Lind Hanssonar, þar sem hann fjallar um efni úr sögu Borgarness.
Eins og kunnugt er gaf Borgarbyggð sögu Borgarness út í vor í tilefni af 150 ára afmæli staðarins og hafði það verkefni verið í nokkur ár í undirbúningi. Formaður ritnefndar var Birna G. Konráðsdóttir.
Var Egill Ólafsson blaðamaður fenginn til að skrifa söguna og hóf hann verkið í ársbyrjun 2014. Svo dapurlega vildi til að hann féll frá aðeins um ári síðar, langt fyrir aldur fram. Egill var afkastamaður til verka og þegar þetta gerðist var hann þegar kominn vel af stað með efnisöflun og skrif. Unnur Lárusdóttir ekkja Egils færði Borgarbyggð verkið á því stigi sem það var og var frændi Egils, Heiðar Lind Hansson sagnfræðingur fenginn til að ljúka skrifunum. Kom sagan síðan út sem tveggja binda ritverk snemma í vor, vel í tæka tíð fyrir afmælisdag Borgarness 22. mars.
Verkið er viðamikið og prýtt fjöldi ljósmynda sem flestar eru frá Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar. Einnig er þar að finna mikið af myndum frá einstaklingum sem veittu góðfúslegt leyfi til birtingar þeirra.
Í erindi sínu í Safnahúsi annað kvöld fjallar Heiðar sérstaklega um tíu þræði sem hann dregur úr sögunni. Erindið tekur um 45 mín. og á eftir er kaffispjall. Dagskrá lýkur um 21. 15.
Þess má geta að Heiðar á ríkan hlut í sýningunni Tíminn gegnum linsuna sem nú er í Safnahúsi og stendur til áramóta. Þar valdi hann ljósmyndirnar og setti við þær skýringartexta. Myndirnar eru eftir fjóra ljósmyndara og sýna mannlíf og umhverfi í Borgarnesi á 20. öld. Ljósmyndararnir eru þessir: Friðrik Þorvaldsson, Einar Ingimundarson, Júlíus Axelsson og Theodór Kr. Þórðarson.
Næsti fyrirlestur í Safnahúsi verður 18. janúar n.k. en þar fjallar Guðrún Bjarnadóttir náttúrufræðingur um jurtalitun.