Þórdís Sif tekur til starfa

apríl 6, 2020
Featured image for “Þórdís Sif tekur til starfa”

Kæru íbúar,

Eftir rúmlega viku í starfi er mér þakklæti efst í huga. Þakklæti til starfsfólks Borgarbyggðar sem gerir þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að starfsemi sveitarfélagsins haldist óskert svo lengi sem kostur er. Þakklæti til fyrirtækja á svæðinu sem aðlaga sig að breyttu umhverfi og bjóða upp á verslun á netinu og heimsendingu og síðast en ekki síst þakklæti til íbúa sem taka ástandinu af stóískri ró, skilningi og samstarfsvilja.

Starfsmenn Ráðhússins, í samstarfi við sveitarstjórnarfulltrúa, eru í óða önn að undirbúa aðgerðaráætlun til viðspyrnu fyrir atvinnulíf í sveitarfélaginu en það er hagur okkar allra að atvinnuleysi og tekjuskerðing verði sem minnst á komandi tímum. Viðbragðsteymi sveitarfélagsins fundar daglega um þær ráðstafanir sem þarf að taka og vikulega eru auka vinnufundir með fulltrúum byggðaráðs þar sem málin eru rædd ítarlega. Það eru allir meðvitaðir um að ástandið mun hafa áhrif á okkur, en með samhentu átaki munum við lágmarka skaðann eftir bestu getu.

Hugum að andlegri og líkamlegri heilsu okkar. Nýtum tímann til hreyfingar í okkar fögru náttúru og kynnum okkur ólíkar lausnir sem er að finna á netinu til persónulegrar þróunar. Verjum tíma með okkar nánustu og notum jafnvel nýstárlegar leiðir til að taka þátt í matarboðum og heimsóknum með hjálp internetsins.

Við munum koma út úr þessu ástandi sem sterkari heild, sterkari einstaklingar og sterkara samfélag. Til þess að það verði þurfum við að vilja það og ætla okkur það og ég trúi því að íbúar sveitarfélagsins séu tilbúnir að leggja sig fram. Það eru bjartari tímar fram undan með sól í haga og blómstur í túni. Þangað til skulum við hlýða Víði, ferðast innanhúss og sýna varkárni í allri umgengni á almannafæri. Ef við förum öll eftir tilmælum höldum við smitum í lágmarki og léttum þannig undir með heilbrigðiskerfinu okkar.

Það er gott að vera komin heim, sjá gamalkunnug andlit og rifja um æskuminningarnar. Móttökurnar eru búnar að vera frábærar þrátt fyrir erfitt ástand. Ég hlakka til samstarfsins og treysti á að við vinnum öll saman að því að gera sveitarfélagið okkar að enn betri stað til að búa á.

Þórdís Sif Sigurðardóttir


Share: