Þakkir frá Rauða krossinum í Borgarfirði

október 21, 2014
Opnun fjöldahjálparstöðva – Eldað fyrir Ísland
Okkur í Rauða krossinum í Borgarfirði langar til að þakka öllum þeim sem komu að æfingunni við opnun fjöldahjálparstöðvar sl. sunnudag. Rúmlega 300 íbúar Borgarbyggðar, sumarhúsagestir og aðrir gestir gerðu sér ferð í eina af þremur fjöldahjálparstöðvum sem við opnuðum, á Bifröst, Hvanneyri og í Borgarnesi, skráðu sig inn, þáðu súpu og skráðu sig út. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Með þessu móti gátum við æft okkur í að setja upp fjöldahjálparstöð, koma merkingum fyrir, fara yfir tiltækan búnað, setja upp skráningarkerfi, vinna á miðlægum gagnagrunni og með fjarskiptatæki auk þess að huga að öðrum fjölmörgum þáttum sem nauðsynlegir eru í aðstæðum sem þessum.
Félag matreiðslumanna og ýmsir styrktaraðilar gerðu okkur kleift að bjóða upp á dýrindis súpu og þökkum við Magnúsi kokki sérstaklega fyrir hans framlag. Sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum sem tóku þátt í æfingunni voru um 30 talsins og er mikill styrkur fyrir okkur á svæðinu að vita af þeim mannskap sem er tilbúinn að bregðast við ef á þarf að halda. Bestu þakkir fyrir daginn.
Elín Kristinsdóttir
formaður Rauða krossins í Borgarfirði
 
 

Share: