Næstkomandi þriðjudag kl. 17.00 verður opnuð í Safnahúsi sýning á málverkum eftir Borgnesinginn Birgi Björnsson. Um er að ræða sölusýningu í samstarfi Safnahúss og körfuboltadeildar Skallagríms, sem á verkin og rennur allur söluhagnaður af þeim til starfsemi hennar. Myndirnar á sýningunni eru gjöf til deildarinnar frá fjölskyldu Birgis, en hann lést í árslok 2009. Sýningin mun standa til 14. desember n.k.
Birgir Björnsson fæddist í Borgarnesi árið 1941. Foreldrar hans voru hjónin Inga Ágústa Þorkelsdóttir og Björn Hjörtur Guðmundsson sem þekktastur hefur orðið fyrir að byggja Bjössaróló í Borgarnesi.
Birgir bjó nær allan sinn aldur í Borgarnesi. Hann starfaði sem verkamaður og var til sjós um tíma. Hann bjó um sinn á Eskifirði og í Færeyjum, en síðan í Borgarnesi til dauðadags. Síðustu árin þar starfaði hann hjá BM Vallá. Birgir ferðaðist gjarnan í frístundum sínum og notað þá til þess húsbíl sem hann átti. Hann stundaði myndlist um árabil og var sjálfmenntaður í þeirri listsköpun og mikill hagleiksmaður. Ekki er vitað til þess að verk Birgis hafi áður verið sýnd ein og sér á sýningu.
Eins og áður sagði verður sýningin opnuð kl. 17.00 þriðjudaginn 30. nóvember í anddyri bókasafns á efri hæð Safnahúss. Hún verður síðan opin á virkum dögum á afgreiðslutíma bókasafnsins frá kl. 13.00 – 18.00 en einnig laugardaginn 11. desember frá 13 – 17.