Starfsmenn Íþróttamiðstöðvarinnar á námskeiði

maí 22, 2002
Starfsmenn Íþróttamiðstöðvarinnar að Varmá og íþróttamannvirkja í Borgarnesi hafa verið á sameiginlegu þjónustu- og skyndihjálparnámskeiði.
Að sögn Sigurður Guðmundssonar íþróttafulltrúa og Indriða Jósafatssonar íþrótta- og æskulýðsfulltrúa í Borgarnesi er námskeiðið liður í símenntun starfsmanna þessara vinnustaða.
Með því að vera með sameiginleg námskeið er hægt að ná kostnaði niður og hægt að hafa námskeiðin markvissari. “Þessi hópur vill líka oft gleymast þ.e. þeir sem eru í framlínunni að þjónusta gesti og gangandi,” sagði Indriði og bætti við að með heimsóknum á milli íþróttamannvirkja hafa starfsmenn tækifæri á að læra af öðrum. “Við ætlum að herma eftir Mosfellingum. Engin spurning, mér finnst t.d. frábært að hafa bókaskáp og
taflborð í anddyri íþróttamiðstöðva, eins og gert er hér í Mosfellsbæ, bæði fyrir börn, unglinga og foreldra þeirra.” Samstarf þessara tveggja byggðarlaga hófst á síðasta ári þegar starfsmenn Varmár komu í heimsókn í Borgarnes. Skipulögð hefur verið óvissuferð í lok námskeiðsins til að hrista hópinn saman. Alls voru 25 manns á námskeiðinu og var Sigurður Þorsteinsson viðskiptafræðingur með framkomu og þjónustunámskeið og Karl Þórsson sá um sérhæft skyndihjálparnámskeið.
 

Share: