Starfsfólk íþróttamannvirkja Borgarbyggðar á námskeiði

maí 7, 2020
Featured image for “Starfsfólk íþróttamannvirkja Borgarbyggðar á námskeiði”

Starfsfólk íþróttamannvirkja Borgarbyggðar hafa nýtt tækifærið á meðan á endurbótum stendur og sundlaugar eru lokaðar, til að sitja námskeið á vegum Starfsmenntar – fræðsluseturs.

Námskeiðið er sérhannað fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja og miðar að því að efla starfsfólk, auka faglega þekkingu þess og mæta auknum kröfum sem gerðar eru til þessa hóps í starfi. Með aukinni fagþekkingu er vonast til að draga úr starfsmannaveltu, efla vinnubrag og starfsánægju og gefa starfsmönnum færi á að þróa starfshæfni sína og þjónustu enn frekar. Námið gefur einnig innsýn í vaxandi möguleika afþreyingariðnaðarins og mikilvægi frístunda.  Námsleiðin var þróuð í samstarfi við Kjöl, stéttarfélag í almannaþjónustu, Akureyrarbæ og starfsmannafélög bæjarstarfsmanna á landsvísu.

Meðal efnis á námskeiðinu var agastjórnun og samskipti við skóla. Auk þess var farið yfir lagalega þætti og ýmis álitamál hvað varðar samskipti við skóla, kennara, börn og foreldra og rætt um ábyrgð starfsmanna íþróttamannvirkja. Einnig var rætt um hagnýt lykilatriði samskipta, viðmót við gesti og öryggisatriði ýmiskonar.


Share: