Starfsdagur leik- og grunnskóla í Borgarbyggð

nóvember 5, 2019
Featured image for “Starfsdagur leik- og grunnskóla í Borgarbyggð”

Starfsdagur kennara og annarra starfsmanna skóla í Borgarbyggð var haldinn 30. október sl. Starfsfólkið nýtti daginn vel, meðal annars með því að hlýða á fyrirlestur Ragnhildar Vigfúsdóttir markþjálfa sem nefnist  „Hvort viltu vera gleðigjafi eða fýlupúki?“. Leitaði Ragnhildur í kistu jákvæðrar sálfræði og kynnti ýmsar leiðir til að auka hamingju og vellíðan í lífi og starfi.

Þeir skólar sem vinna samkvæmt hugmyndafræði leiðtogans í mér héldu fræðsludag í Reykholti hjá Litlu menntabúðinni. Þar var haldið nýliðanámskeið fyrir nýtt starfsfólk sem Kristín Gísladóttir og Steinunn Baldursdóttir sáu.  Upprifjun fyrir reynt starfsfólk var í höndum Hlöðvers Inga Gunnarssonar og Ingibjargar Ingu Guðmundsdóttir.

Milli fræðsluerinda og umræðna var sungið undir stjórn Þorvalds Jónssonar og Ása Erlingsdóttir setti endapunktinn á daginn með samstöðujóga og gleði.

Í Grunnskólanum í Borgarnesi er í nógu að snúast, en um þessar mundir er fyrra áfanga að ljúka á endurbótum við skólann. Mikil skipulagsvinna hefur hvílt á stjórnendum og kennurum á framkvæmdartímanum og hefur starfsmannahópurinn þurft að sýna sveigjanleika í staðsetningu og útfærslu á kennslu þennan tíma. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með hversu faglega stjórnendur og kennarar hafa tekist á við þetta verkefni sem lýkur næsta haust. Þá munu nemendur og starfsfólk búa við bætt starfsumhverfi.


Share: