Spjaldtölvur afhentar

mars 31, 2016
Featured image for “Spjaldtölvur afhentar”

Borgarbyggð afhenti í dag rúmlega eitt hundrað spjaldtölvur til skólastjórnenda leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla. Markmiðið með spjaldtölvuvæðingu skólanna er aukin einstaklingsmiðun og fjölbreytni náms og kennslu auk þess að stefnt er að því að auka þátt nýsköpunar í skólastarfi.

Spjaldtölvuvæðing skólanna er liður í að styrkja innra starf skóla í Borgarbyggð og einn þáttur í innleiðingu þeirra skólastefnu sem nú er verið að leggja lokahönd á sagði Lilja Björk Ágústsdóttir, varaformaður fræðslunefndar þegar hún afhenti tölvurnar í Grunnskóla Borgarfjarðar-Kleppjársnreykjum. Geirlaug Jóhannsdóttir formaður byggðarráðs tók einnig til máls og lagði áherslu á að verið sé að styrkja innra starf skólanna og það faglega starf sem þar er unnið.

Með því að nota spjaldtölvur í kennslu fá nemendur tækifæri til að vinna sjálfstætt, uppgötva námsefnið á eigin forsendum og leita lausna. Einnig styðja mörg smáforrit vel við nám í grunnþáttum menntunar samkæmt aðalnámskrám.

Kennarar í Borgarbyggð hafa verið hvattir til að sækja námskeið  um möguleika spjaldtölva í námi og kennslu. Einnig verða haldin námskeið í hverjum skóla í vor og næsta haust.


Share: