Slökkviliðið fær Res-Q-Jack björgunarstoðir

júní 26, 2007
Nýverið afhenti Lionsklúbbur Borgarness Slökkviliði Borgarbyggðar Res-Q-Jack björgunarstoðir til að nota í tækjabílnum. Slíkar stoðir eru hjá nokkrum slökkviliðum um landið og sú gerð sem Slökkviliðið fékk er þriggja stoða og með tjakki. Hlutverk stoðanna er að styðja við bíla, sem í umferðaslysum hafa lent annað hvort á toppnum eða á hliðinni. Stoðirnar styðja þannig við bílflökin á meðan þau er klippt í sundur til bjargar fólki og eiga þannig að koma í veg fyrir að það færist úr stað meðan á björgun stendur. Þá geta stoðirnar einnig gert vinnu við önnur björgunarstörf öruggari, svo sem rústabjörgun.
Frá árinu 2000 hefur Slökkvilið Borgarbyggðar séð um útköll vegna umferðaslysa þar sem beita þarf klippum og öðrum björgunartækjum til að ná fólki úr bílum. Alls hafa slík útköll verið um 60. Að sögn Bjarna Þorsteinssonar, slökkviliðsstjóra eru stoðirnar kærkomin viðbót við annan björgunarbúnað Slökkviliðsins og kann hann Lionsklúbbnum bestu þakkir.

Share: