Sígaunabaróninn í Gamla mjólkursamlaginu

janúar 29, 2008
Tónlistarskóli Borgarfjarðar stendur fyrir óperusýningu í Gamla mjólkursamlaginu í Borgarnesi nú í febrúar. Tilefnið er 40 ára afmæli Tónlistarskóla Borgarfjarðar og einnig að söngdeildin við skólann er 20 ára. Um 35 manns taka þátt í sýningunni, þar af níu börn. Það eru átta nokkuð stór einsöngshlutverk og einnig eru nokkur minni hlutverk sem félagar í kórnum fara með. Zsuzsanna Budai leikur með á píanó í sýningunni. Leikstjóri er Ása Hlín Svavarsdóttir og Garðar Cortes stjórnar tónlistinni.
Gamanóperan Sígaunabaróninn eftir Johann Strauss gerist í Ungverjalandi og Vínarborg og fjallar um samskipti sígaunanna við svínabónda nokkurn og hans fólk, ástir þeirra og örlög. Sýningin samanstendur af söng og tali og úr þessu verður hin skemmtilegasta flétta. Þessi sýning ætti að höfða til flestra, tónlistin er í senn fjörug fyndin og falleg.
 
Frumsýnt verður fimmtudaginn 7. febrúar kl. 20:00.
Laugardaginn 9. febrúar kl. 20:00 verður önnur sýning og
sunnudaginn 10. febrúar þriðja sýning.
 
Miðapantanir eru í síma 437 1598 og á netfangið: tskb@simnet.is
 
 

Share: