Samstarf sveitarfélaga norðan Skarðsheiðar

október 17, 2000

Á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar þann 12. október var samþykkt að taka þátt í samstarfi sex sveitarfélaga norðan Skarðsheiðar um útboð á reglubundinni tæmingu rotþróa í dreifbýli. Oddvitar sveitarfélaganna höfðu áður mælt með að ráðist verði í verkefnið en það eru sveitarfélögin Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Hvítársíðuhreppur, Kolbeinsstaðahreppur og Eyja- og Miklaholtshreppur sem standa að þessu samstarfi. Ljóst er að gangi ætlunarverkið eftir eru sveitarfélögin að brjóta nokkurt blað í framkvæmd þessara mála á Íslandi.

Ákveðið var að þátttaka verði frjáls fyrir íbúana og verður eigendum fasteigna í Borgarbyggð sent kynningarblað á næstunni þar sem óskað er eftir staðfestingu á þátttöku í verkefninu. Auk þess verða menn beðnir um að staðsetja sínar rotþrær og senda upplýsingar þar að lútandi til skrifstofu Borgarbyggðar. Markmiðið með því er að fyrir liggi sem nákvæmastar upplýsingar í útboðsgögnum um fjölda og staðsetningu rotþróa sem á að leiða til þess að hagstæðari tilboð fáist en ella. Miðað er við að hver rotþró verði tæmd annað hvert ár en sveitarfélögin munu innheimta jafnaðargjald fyrir þjónustuna, þ.e. árlega fjárhæð.
Samkvæmt reglugerð á skolp frá íbúðar- og sumarhúsum í dreifbýli að fara í gegnum rotþrær. Rotþró hreinsar mengandi efni úr skolpi áður en því er veitt út í sandsíu og þaðan í grunnvatn eða yfirborðsvatn. Smám saman setjast föst ólífræn efni í botn rotþrónna sem þarf að hreinsa upp. Eftir því sem meira af föstu efni safnast fyrir í rotþróm, því minni verður hreinsivirknin. Nauðsynlegt er því hreinsa rotþrær á tveggja til þriggja ára fresti til að koma í veg fyrir að mengandi efni úr þeim geti spillt grunn- eða yfirborðsvatni. Þá aukast líkur á stíflu í sandsíu ef dregst að hreinsa rotþró.
Samkvæmt reglugerð nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru skulu sveitarstjórnir koma á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm. Nú eru horfur á að ofangreind sveitarfélög sameinist um aðgerðir og bjóði út hreinsun rotþróa. Markmiðið er í aðalatriðum tvíþætt, að uppfylla heilbrigðiskröfur um notkun og hreinsun rotþróa í sveitarfélögunum og að ná niður kostnaði með sameiginlegu útboði. Mikilvægt er að sem flestir taki þátt í verkefninu, því meiri sem þátttakan verður, því hagstæðari tilboð ættu að fást. Mönnum verður þó áfram frjálst að sjá um tæmingu sinna rotþróa eins og hingað til en bent er á að meðhöndlun seyru er starfsleyfisskyld og að seyru skal farga á viðurkenndum urðunarstað.


Share: