Samstarf menntastofnana í Borgarbyggð

febrúar 21, 2020
Featured image for “Samstarf menntastofnana í Borgarbyggð”

Að frumkvæði fræðslunefndar Borgarbyggðar var haldinn sameiginlegur fundur skólastjórnenda og kennara leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, menntskóla og háskóla í Borgarbyggð ásamt Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands í Landnámssetrinu þann 18. febrúar sl. Dr. Anna Kristín Sigurðardóttir var fyrirlesari á fundinum og ræddi hún um mikilvægi samstarfs og uppbyggingu lærdómssamfélags.

Lærdómssamfélag er hópur fólks sem deilir sameiginlegum áhuga og sýn á nám, vinnur saman, styður hvert annað og leitar sameiginlegra leiða til að greina starfshætti sína, bæta þá og innleiða nýja sem geta stuðlað að betri árangri nemenda. Í árangursríku lærdómssamfélagi ríkir menning sem hvetur og viðheldur stöðugu námi meðal starfsfólks skólans í þeim sameiginlega tilgangi að styrkja nám nemendanna.

Margt þarf að hafa í huga þegar þróa skal og styrkja lærdómssamfélag skóla. Mikilvægt er að huga að sameiginlegri framtíðarsýn  meðal starfsmanna. Hún er nauðsynleg forsenda þess að stefna komist í framkvæmd og leiði til úrbóta. Hvaða leið sem farin á það alltaf að vera leiðarljósið að nemandinn og árangur hans sé í brennidepli.

Unnu þátttakendur í hópum að tillögum um samstarfsverkefni skólanna sem fyrirhugað er að hrinda í framkvæmd á næstu mánuðum.  


Share: