Samningur um uppbyggingu þráðlauss breiðbands í Borgarfirði

október 1, 2004
Í dag kl. 15:00 undirrituðu eMax ehf. og sveitarfélögin Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit, Skorradalshreppur og Hvítársíðuhreppur samstarfssamning um uppbyggingu þráðlauss breiðbandskerfis í umræddum sveitarfélögum. Þráðlaust breiðbandskerfi nýtist sem burðarlag fyrir margskonar þjónustu s.s. að tengjast Internetinu, flytja útvarps- og sjónvarpssendingar og fyrir eftirlits og öryggiskerfi sem t.d. má nota við fjarvöktun á sumarhúsum, svo dæmi séu tekin. Með þessari uppbyggingu verður Borgarfjörðurinn orðinn “best tengda” svæði landsins, utan höfuðborgarinnar. Uppbygging kerfisins hófst á síðasta ári með uppsetningu senda í Skorradal, Borgarnesi og á Hvanneyri. Komin er góð reynsla á kerfið og umtalsverður fjöldi áskrifenda nýtir sér þjónustuna.
 
Í samkomulagi aðilanna er gert ráð fyrir því að a.m.k. 80% heimila í þessum sveitarfélögum eigi kost á þjónustunni fyrir 1. október 2004 og yfir 95% fyrir 1. júní 2005. “Þetta er mjög mikilvægur áfangi í uppbyggingu dreifikerfis eMax ehf. Ég er sérstklega ánægður með þá framsækni og áræðni sem fulltrúar sveitarfélaganna hafa sýnt í þessu máli” segir Stefán Jóhannesson framkvæmdastjóri eMax ehf. “Það er hagsmunamál að öllum íbúum og fyrirtækjum í Borgarfirði standi til boða sambærileg netþjónusta og ADSL en sú þjónusta hefur ekki verið til staðar hingað til utan þéttbýlisstaða. Aukin ferðaþjónusta, frístundabyggð og tvöföld búseta kallar einnig á betri netþjónustu og gagnaflutninga, en ein af kröfum nútímasamfélags er að geta tengt tölvuna hvar sem er og unnið.” segir Linda Björk Pálsdóttir sveitarstjóri Borgarfjarðarsveitar.
Um eMax ehf.
eMax ehf. var stofnað árið 2001 og hefur síðan þá byggt upp þráðlaust dreifikerfi fyrir gagnaflutninga sem nær til höfuðborgarsvæðisins, Akureyrar og nokkura bæjarfélaga og sumarhúsabyggða á landsbyggðinni. Fyrirhuguð er áframhaldandi stækkun dreifikerfisins og sérstaklega er horft til sumarhúsabyggða og staða á landsbyggðinni þar sem DSL þjónusta er ekki fyrir hendi. Þjónustan er nýtt bæði af einstaklingum og fyrirtækjum, en þráðlausar tengingar eru hagkvæmur valkostur sem er fyllilega sambærilegur við aðra tengimöguleika hvað varðar afköst og verð. eMax ehf. er dótturfélag Þekkingar hf.
Frekari upplýsingar veitir Stefán Jóhannesson framkvæmdastjóri eMax ehf. í síma 460 3100 / 899 3233 www.emax.is
 

Share: