Samið um ljósleiðara til heimila í Borgarnesi og á Hvanneyri

október 6, 2015
 
Stjórnendur Gagnaveitu Reykjavíkur (GR) og Borgarbyggðar skrifuðu síðastliðinn föstudag undir viljayfirlýsingu um samstarf við ljósleiðaravæðingu heimila í þéttbýli Borgarbyggðar. GR ætlar að tengja öll heimili í þéttbýliskjörnunum í Borgarnesi og á Hvanneyri á árunum 2016 til 2018. Um 900 heimili í Borgarnesi verða tengd ljósleiðaranum og um 80 á Hvanneyri. Ljósleiðarastrengur GR liggur nú þegar í gegnum sveitarfélagið, að Hvanneyri og í gegnum Borgarnes að Bifröst.

Í hóp framsæknustu þéttbýlisstaða
„Sveitarstjórn Borgarbyggðar ákvað að stíga þetta framfaraskref til að stuðla að auknu aðgengi íbúa Borgarbyggðar að þeim lífsgæðum sem felast í hraðvirkum fjarskiptum. Öflug nettenging er á meðal mikilvægustu hagsmunamála landsbyggðar í dag og ljósleiðarinn er okkar svar. Borgarnes og Hvanneyri skipa sér með þessu í hóp framsæknustu þéttbýlisstaða á landinu,“ segir Kolfinna Jóhannesdóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar í samtali við Skessuhorn. GR mun fjármagna uppbyggingu og rekstur ljósleiðarans og verður verðlagning á þjónustu til heimila í Borgarbyggð sambærileg og annarsstaðar þar sem GR hefur byggt upp ljósleiðarakerfi. Í framlagi Borgarbyggðar til samstarfsins felst að sveitarfélagið veitir GR aðgang að landi og framkvæmdaheimildum.
 
 

100 til 500 megabita hraði í báðar áttir
„Hlutverk GR er að auka lífsgæði íbúa og samkeppnishæfni fyrirtækja en GR hefur verið í forystu í fjarskiptum á Íslandi með uppbyggingu ljósleiðarans. GR leggur einn þráð inn á hvert heimili og setur upp endabúnað sem nú ræður við gagnahraða í báðar áttir sem nemur einum gígabiti á sekúndu. Ýmis fjarskiptafyrirtæki veita síðan viðskiptavinum þjónustu um strenginn. Nú eru þau farin að bjóða 100 til 500 megabita flutningshraða. Engin önnur fjarskiptatenging til heimila gefur kost á slíkum hraða í dag,“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri GR. „Ljósleiðarinn frá GR byggir á opnu neti og hægt er að kaupa þjónustu um hann af mörgum fjarskiptafélögum. Það eykur fjölbreytni og samkeppni innan kerfisins. Söluaðilar á þjónustu um Ljósleiðarann eru Vodafone, Hringdu, Hringiðan, 365 og Símafélagið. Grunnhugsunin er að viðskiptavinurinn hafi úr mörgu að velja á opnu neti Gagnaveitu Reykjavíkur.“
Ljósleiðaravæðing í dreifbýli í undirbúningi
Borgarbyggð undirbýr jafnframt ljósleiðaravæðingu í dreifbýli. Búið er að samþykkja að gera könnun í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi með það að markmiði að greina umfang verkefnisins í sveitum. Sveitarfélagið áformar að vera vel undirbúið þegar fyrir liggur niðurstaða um fjárveitingar í landsátak ríkisstjórnarinnar í ljósleiðaravæðingu. „Það er mikilvægt að sem flestir íbúar taki þátt í könnun SSV þegar hún verður send út. Við bindum miklar vonir við áform ríkisstjórnarinnar en það er ljóst að ljósleiðaravæðingu í dreifbýli þarf að vinna í samstarfi við opinbera aðila,“ segir Kolfinna Jóhannesdóttir sveitarstjóri. „Við höfum einnig átt mjög gott samstarf við Vodafone en fyrirtækið hefur unnið að því að styrkja verulega háhraðaþjónustu með uppsetningu á 4G sendum í sveitarfélaginu, nú síðast á Rauðamelskúlu sem eflir verulega háhraðasamband á sunnanverðu Snæfellsnesi, á Mýrum, í Hnappadal og víðar.Við erum afar ánægð með þann mikla áhuga sem fjarskiptafyrirtæki hafa sýnt okkar svæði. Þetta er grunnforsenda búsetu í nútímasamfélagi og styður allan vöxt og uppbyggingu á svæðinu til framtíðar,“ segir Kolfinna.
 

Share: