Samgönguvika hófst í dag og af því tilefni hefur verið opnuð sérstök heimasíða, http://samgonguvika.is/. Síðan er unnin í samvinnu umhverfisráðuneytisins og þeirra sveitarfélaga sem taka þátt í Samgönguviku að þessu sinni. Á síðunni er til dæmis hægt að skoða dagskrá Samgönguviku 16.-22. september, lesa fréttir af viðburðum vikunnar og taka þátt í getraun þar sem hægt er að vinna reiðhjól frá Erninum, ársmiða í Strætó og sundkort.
Fyrsti dagur Samgönguviku er í dag og í Reykjavík verður vikan formlega sett í Fellaskóla kl. 14:00.
Samgönguvika er evrópskt átak um bættar samgöngur í borgum og bæjum. Markmið vikunnar er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og virkja það til að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga. Einnig er vikunni ætlað að hvetja stjórnvöld til að stuðla að notkun þessara samgöngumáta og fjárfesta í nauðsynlegum aðbúnaði.
Þema Samgönguviku í ár er Fjölbreyttar ferðavenjur – Bætt lífsgæði. Fleiri en 2.000 evrópsk sveitarfélög taka þátt í Samgönguviku í ár, þar af sjö hér á landi og er Borgarbyggð eitt þeirra. Bækur tengdar yfirskrift þessa árs liggja frammi í Safnahúsi Borgarfjarðar og kynningarefni verður sent í skóla sveitarfélagsins og birt á heimasíðu.