Eins og kunnugt er eru söfn landsins lokuð þessa dagana. Í Safnahúsinu sinnir fólk störfum sínum eftir bestu getu og vinnur eftir viðbragðsáætlun við þessar aðstæður í samvinnu við viðbragðsteymi Borgarbyggðar. Unnið er að ýmsum verkefnum er tengjast safnkosti hússins auk þess sem fróðleik er miðlað rafrænt með ýmsum hætti.
Nýtt efni er sett inn á Facebook-síðu hússins daglega, en þar fylgjast um 1400 manns með, bæði núverandi íbúar og brottfluttir. Ennfremur er nýju efni miðlað á heimasíðu hússins, www.safnahus.is.
Á síðustu mánuðum hefur Kvikmyndafjelag Borgarfjarðar (www.kvikborg.is) tekið upp fróðleiksþætti um safnkostinn og hafa nú fjórir slíkir verið gerðir. Þættina úr Safnahúsinu má nú sjá á heimasíðu þess. Eru þeir afar vandaðir og eiga forsvarsmenn Kvikmyndafjelagsins bestu þakkir skilið fyrir þetta framlag til miðlunar borgfirskrar sögu.