Rekstur Reykholts á fyrri tíð

maí 29, 2007
Þriðjudagskvöldið 5. júní klukkan 20:30 mun Benedikt Eyþórsson sagnfræðingur flytja fyrirlestur í bókhlöðu Snorrastofu sem ber titilinn Guðsorð og gegningar. Af búskaparháttum og annarri umsýslu staðarhaldara í Reykholti á fyrri tíð. Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni Fyrirlestrar í héraði, sem styrkt er af Menningarsjóði Borgarbyggðar.
 
Benedikt lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2002 og MA-námi í sömu grein við sama skóla í febrúar 2007. Fyrirlestur sinn mun Benedikt byggja á rannsóknum sínum á staðnum Reykholti, enda fjölluðu báðar lokaritgerðir hans um Reykholt og sögu staðarins. Þær voru hluti af hinu viðamikla Reykholtsverkefni og unnar undir leiðsögn Helga Þorlákssonar, prófessors við Háskólann.
Benedikt starfar sjálfstætt um þessar mundir auk þess sem hann leggur stund á kennsluréttindanám við Kennaraháskóla Íslands og mun ljúka því námi nú í vor.
Fyrirlesturinn hefst sem fyrr segir klukkan 20:30 þriðjudaginn 5. júní í bókhlöðu Snorrastofu í Reykholti. Aðgangseyrir er 500 kr, en boðið verður upp á kaffi í hléi.
 
Meðfylgjandi mynd tók Guðrún Jónsdóttir.
 

Share: