Reglubundin tæming á rotþróm

október 10, 2001

Ágæti viðtakandi.

Nú hafa ofangreind sveitarfélög boðið út tæmingu rotþróa íbúðar- og sumarhúsa í dreifbýli. Til verksins hefur verið valinn verktaki með góðan búnað og tilskilið starfsleyfi til rekstrarins og var tilboð hans talið hagstætt.

Um er að ræða tvær tæmingar á hverri rotþró og líða þrjú ár á milli tæminga. Sá tími var valinn í samráði við ráðgjafa og Hollustuvernd Ríkisins. Sveitarfélögin hafa ákveðið að leggja á árlegt gjald fyrir fyrstu tæmingu og verður kostnaði húseigenda þannig dreift niður á þrjú ár. Miðað er við hefja innheimtu gjaldsins með fasteignagjöldum á næsta ári. Tillaga er um að árlegt gjald verði sem hér segir og miðast það við stærð rotþróar (sveitarfélögin eiga eftir að gefa út formlega gjaldskrá):

Rotþró0 – 2000 lítra Rotþró2001 – 4000 lítra Rotþró4001 – 6000 lítra Rotþróyfir 6000 lítra
3.000 kr. per ár 3.500 kr.per ár 4.150 kr.per ár 2000 kr per rúmmetra(1)
(1) Ekki greiðsludreifing

Þurfi að nota framlengingarbarka sem er lengri en 50 metra við dælingu frá rotþró er innheimt kr. 4.000 álag fyrir hverja losun. Þurfi að fara aukaferð í rotþró, þ.e. tæmt utan reglubundinnar yfirferðar, er innheimt 50 % álag á venjulegt gjald, s.k.v. töflu að ofan. Gjaldskrá þessi verður síðan endurskoðuð árlega miðað við almennar verðlagsbreytingar.

Samkvæmt ofangreindu er það hagur rotþróareiganda að vera með frá upphafi þar sem kostnaðarsamara er að hefja þátttöku þegar rotþró fyllist skyndilega. Rétt er að árétta að rotþrær fyllast, því ekki er um að ræða algera eyðingu á úrganginum. Virkni rotþróar og ending siturkerfis eru best tryggð með reglubundinni tæmingu og er þannig dregið úr líkum á mengun vegna frárennslis.

Verktaki áætlar að byrja tæmingu í októbermánuði 2001 í Eyja- og Miklaholtshreppi og vinnur hann sig svo austur að Skorradalshreppi á næstu þremur til fjórum mánuðum. Tíminn mun ráðast af árferði og veðri. Eigendur rotþróa eru því beðnir að ganga úr skugga um að rotþrærnar séu aðgengilegar og auðfundnar og helst að merkja staðsetninguna með veifu á stöng eða öðrum áberandi hætti. Æskilegt er að þeir sem tök hafa á kanni hvort viðkomandi þrær eru opnanlegar.

Þeir sem ekki hafa þegar skráð þátttöku, en hafa hug á því, er bent á að hafa samband við skrifstofu Borgarbyggðar sem allra fyrst og fylla út skráningareyðublöð. Þeir sem ekki eru með þegar hin reglubundna tæming fer fram eiga þess ekki kost að koma inn í verkefnið fyrr en við næstu reglubundnu tæmingu að þremur árum liðnum.

Tengiliður Borgarbyggðar er Sigurjón Jóhannsson (h.s. 437-1787)
en einnig má hafa samband við skrifstofu Borgarbyggðar s. 437-1224


Share: