Refa- og minkaveiði

júlí 22, 2011
Undanfarið hefur verið mikil umræða um refaveiði í Borgarbyggð líkt og í ýmsum öðrum sveitarfélögum. Í kjölfar þessa kallaði byggðarráð eftir upplýsingum frá umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa um veiðarnar.
Í samantekt umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa sem lögð var fram á fundi byggðarráðs nýverið má glöggt sjá að frá árinu 2001 fram til ársins 2009 er töluverð aukning á fjölda refa sem veiddir voru í sveitarfélaginu. Árið 2001 voru veiddir 326 refir, en mest var veitt af ref árið 2008 eða 476 dýr.
Árið 2009 dró Borgarbyggð úr fjárveitingu til refa- og minkaveiða og á sama tíma var skipulagi veiðanna breytt. Síðastliðin tvö ár hafa verið veiddir á vegum sveitarfélagsins vel á þriðja hundrað refir og hefur kostnaður sveitarfélagsins vegna refa- og minkaveiða verið um 4 milljónir á ári, auk þess sem ríkið hefur veitt sveitarfélaginu framlag í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar vegna veiðanna. Framlag ríkisins til Borgarbyggðar hefur verið um ein milljón á ári undanfarin tvö ár.
Árið 2011 er gert ráð fyrir að svipaðri upphæð verði varið til veiðanna af hálfu Borgarbyggðar, en hins vegar hefur ríkið hætt að greiða sveitarfélögum framlag vegna refaveiða og mun aðeins greiða framlag vegna minkaveiða.
Byggðarráð hefur falið landbúnaðarnefnd að endurmeta tilhögun refa- og minkaveiða í Borgarbyggð.
 
 
 
 
 

Share: