Raftæki eiga ekki heima í ruslinu

mars 6, 2020
Featured image for “Raftæki eiga ekki heima í ruslinu”

Raftækjaúrgangur hefur aukist mjög á heimsvísu og á Íslandi er áætlað að um 7.200 tonn falli til árlega af raftækjaúrgangi. Söfnun til endurvinnslu hefur hins vegar ekki gengið nægjanlega vel og samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar var einungis 37% af raftækjaúrgangi skilað til endurvinnslu árið 2018. 

Í raftækjum er að finna verðmæta málma og sjaldgæf efni sem mjög mikilvægt er að endurvinna til að draga úr álagi á auðlindir jarðar. Þar að auki geta vörurnar verið hættulegar umhverfi, heilsu manna og dýra vegna spilliefna ef þeim er hent í ruslið. 

Úrvinnslusjóður hefur meðal annars það hlutverk að tryggja söfnun og meðhöndlun rafeinda- og raftækjaúrgangs. Sérstakt úrvinnslugjald er lagt á þessar vörur til að standa undir kostnaði við skipulega söfnun og endurvinnslu raftækja- og rafeindaúrgangs.  Úrvinnslusjóður og Umhverfisstofnun hafa á þessu ári sett af stað tilraunaverkefni þar sem raftækjum er safnað í verslunum í nokkrum sveitarfélögum víða um land til að reyna að hækka hlutfall raftækjaúrgangs sem skilar sér í endurvinnslu.

Í Borgarbyggð er tekið á móti raftækjaúrgangi á gámastöðinni við Sólbakka í Borgarnesi og eru íbúar eindregið hvattir til að passa upp á að raftækin lendi ekki í ruslinu.

Fróðlegar upplýsingar um úrgangsmál má sjá á vefjum Umhverfisstofnunar og Úrvinnslusjóðs.


Share: