Nýtt safnaðarheimili Borgarneskirkju vígt

nóvember 6, 2003
Sr. Þorbjörn Hlynur Árnason og Kór Borgarneskirkju við athöfnina í nýja safnaðarheimilinu.
Að lokinni guðsþjónustu í Borgarneskirkju síðstliðinn sunnudag vígði sóknarpresturinn, Sr. Þorbjörn Hlynur Árnason, nýtt safnaðarheimili kirkjunnar í húsnæði sem kirkjan keypti af Verkalýðsfélagi Borgarness fyrr á
árinu.
Í ræðu sem formaður sóknarnefndar, Arna Einarsdóttir, flutti við athöfnina kom fram að ekki væri búið að festa niður nýtingu á húsnæðinu í náinni framtíð en söfnuðurinn hefur ekki haft félagsaðstöðu af þessu tagi til
umráða áður. Arna sagði að til að byrja með flyttist TTT starf safnaðarins úr kirkjunni í safnaðarheimilið og að einnig yrði fermingarfræðslan þar að hluta. Þá hefur skrifstofa kirkjunnar þegar verið flutt í nýja safnaðarheimilið og einnig sagði Arna í sinni ræðu að allar hugmyndir að starfi á vegum safnaðarins væru vel þegnar.

Sem kunnugt er hefur Verkalýðsfélag Borgarness í byggingu nýtt húsnæði fyrir
sína starfsemi en félagið hefur afnot af fyrra húsnæði fram á vor. Formaður
Verkalýðsfélagsins, Sveinn Hálfdánarson, flutti ræðu við athöfnina og óskaði
söfnuðinum velfarnaðar á þessum nýja stað og afsalaði nafninu á húsnæðinu ef
söfnuðurinn vildi nýta það en húsið hefur borið nafnið Félagsbær síðan
Verkalýðsfélagið flutti þar inn á sínum tíma.
Vel á annað hundrað manns tók þátt í athöfninni í safnaðarheimilinu og sagði
Arna að það hefði verið áberandi að fólk hafi verið ánægt með hið nýja
húsnæði safnaðarins.

 

Share: