Ekki orðið að kæk að kaupa verslanir

nóvember 13, 2003
„Það er ekki orðið að kæk hjá okkur að kaupa eina verslun á viku, við skulum hafa það á hreinu,” sagði Bjarki Þorsteinsson verslunarstjóri Kaupfélags Borgfirðinga þegar hann var inntur eftir fréttum af kaupum á Versluninni Tanga í Grundarfirði. Eins og fram kom í síðasta tölublaði Skessuhorns var gengið frá kaupum KB á versluninni Grundavali á Akranesi í síðustu viku og þessa vikuna er það Grundarfjörður. Við höfum átt í samingaviðræðum við eigendur Verslunarinnar Tanga í nokkurn tíma og nú eru kaupin gengin í gegn og við munum opna fyrir vestan á föstudag undir nafninu Grundaval. Þessi verslun verður rekin á svipuðum grunni og Grundaval á Akranesi en ekki með sama opnunartíma. Grundaval á Akranesi er nokkurskonar klukkubúð en í Grundarfirði er um að ræða einu dagvöruverslunina á staðnum og reksturinn tekur mið af því. Við ætlum að reka þarna heildstæða dagvöruverslun með góðri þjónustu og breiðu vöruúrvali.” Aðspurður um vöruverð segist Bjarki vonast til að það muni lækka. „Það verður að flestu leiti samræmt við verslun okkar í Hyrnutorgi og við munum leitast við að vera með bitastæð tilboð í hverri viku.” Sem kunnugt er, er verslun KB í Hyrnutorgi stórmarkaður með ýmiskonar sérvöru til viðbótar við matvöruna. Bjarki segir að ekki sé í deiglunni að fara með sérvöruna í nýju verslanirnar tvær. „Það kann þó að vera að við bjóðum upp á sérvöru í Grundarfirði á völdum liðum en það verður þá spilað af fingrum fram.” Bjarki segir að ekki sé fyrirhugað að kaupa fleiri verslanir á næstunni, allavega örugglega ekki í næstu viku. „Það er ekki fleira í sigtinu að svo komnu máli. Núna munum við einbeita okkur að því að ná vel utan um það sem við erum með. Þessi stærð er vel til þess fallin að reka góðar verslanir með góðu vöruverði og vöruúrvali,” segir Bjarki.


Share: