Nýsköpunar- og þróunarsetur í samstarfi háskólanna í Borgarbyggð stofnað

ágúst 18, 2021
Featured image for “Nýsköpunar- og þróunarsetur í samstarfi háskólanna í Borgarbyggð stofnað”

Í gær var skrifað undir viljayfirlýsingu milli ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólans á Bifröst um að hjá háskólunum tveimur byggðist upp nýsköpunar- og þróunarsetur þar sem áhersla verður lögð á nýsköpun, rannsóknir, fræðslu og frumkvöðlastarf á sviði landbúnaðar, matvælaframleiðslu, sjálfbærni og loftslagsmála, sem og frumkvöðlastarf á landsbyggðinni almennt svo sem í ferðaþjónustu, nýtingu náttúrugæða og menningartengdri starfsemi. Einnig var skrifað undir viljayfirlýsinguna f.h. Borgarbyggðar, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Háskóla Íslands, Breiðar þróunarfélags, Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands, Hugheima og Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins verkefninu til stuðnings.

Markmiðið er að skapa umhverfi fyrir samvinnu, þróun og miðlun ólíkrar þekkingar á sviði rannsókna, nýsköpunar og sjálfbærni. Sérstaklega verður horft til landbúnaðar, matvælaframleiðslu, ferðamála og loftslagsmála með það að markmiði að styrkja samkeppnisstöðu íslensks samfélags, efla atvinnu- og byggðaþróun og auka lífsgæði í landinu. Í þessu felst að styðja við tækniþróun, rannsóknir, alþjóðlegt samstarf og greiningar á þessu sviði auk þess sem horft er til þess að miðla þekkingu og veita stuðningsþjónustu fyrir þróun viðskiptahugmynda og nýsköpunarverkefna.

Landbúnaður er ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs og mikil sóknarfæri í greininni, meðal annars vegna:

  • framþróunar í tækni og þekkingar á sviði hefðbundins landbúnaðar, jarðræktar og nýrra greina;
  • tengingar við umhverfisáhrif og loftslagsbreytingar;
  • auðlinda landsins á sviði þekkingar, hreinnar orku og annarra náttúruauðlinda; og
  • fólksfjölgunar á heimsvísu og breyttra neysluvenja.

Borgarbyggð fagnar samstarfi háskólanna tveggja í sveitarfélaginu en verðmætasköpun þeirra fyrir sveitarfélagið og landsbyggðanna í heild mun aukast með þeim áherslum sem settar eru fram í nýsköpunar- og þróunarsetrinu. Opið er fyrir því að fleiri aðilar verði þátttakendur í nýsköpunar- og þróunarsetrinu og verkefninu til stuðnings.

Það verður spennandi að vinna með aðilum verkefnisins í framþróun þess á næstu árum.

 

 


Share: