Sameiginlegt vekefni Tónlistarskóla á Íslandi kallast “Nótan” og er uppskeruhátíð skólanna. Nemendur frá tónlistarskólum á Vesturlandi, Vestfjörðum og Húnaþingi vestra halda tónleika í Hjálmakletti 8. mars næstkomandi kl. 13.30. Þátttakendur koma frá 10 tónlistarskólum að þessu sinni. Flutt verða fjölbreytt verk úr ýmsum áttum.
Nemendur í grunn- mið- og framhaldsstigi koma einnig fram og í lok tónleikanna fá nemendur viðurkenningu fyrir einleik, samspil/söng og frumsamið verk. Þá verða valin þrjú atriði sem fara áfram og taka þátt í lokaathöfn Nótunnar í Hörpu 23. mars næstkomandi.
Tónleikarnir eru öllum opnir og aðgangur ókeypis. Íbúar Borgarbyggðar eru hvattir til að mæta á þennan skemmtilega viðburð tónlistarskólanna.
Uppskeruhátíðin er hugsuð sem ný vídd í starfsemi tónlistarskóla. Vonir standa til að hátíðin verði í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í starfsemi tónlistarskóla fyrir aðstandendur skólanna jafnt innan veggja þeirra sem utan.
Tónlistarskólar landsins eru um níutíu talsins. Þar fer fram gríðarlega fjölbreytt og öflugt starf og með hátíðinni er kastljósinu beint að þessum samfélögum og tónlistarnemendum veittar viðurkenningar fyrir afrakstur vinnu þeirra. Markmiðið er að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskóla við umhverfi sitt.
Uppskeruhátíðin er þrískipt og skipulögð þannig að allir geti tekið þátt. Þátttakendur eru frá öllu landinu, á öllum aldri og efnisskráin endurspeglar ólík viðfangsefni tónlistarnemenda á öllum stigum tónlistarnáms.
Uppskeruhátíðin er þrískipt og skipulögð þannig að allir geti tekið þátt. Þátttakendur eru frá öllu landinu, á öllum aldri og efnisskráin endurspeglar ólík viðfangsefni tónlistarnemenda á öllum stigum tónlistarnáms.
Mynd: Myndin er frá Nótutónleikunum á Ísafirði síðasta ár.