Niðurstöður íbúakönnunar Gallup fyrir árið 2017.

janúar 22, 2018
Featured image for “Niðurstöður íbúakönnunar Gallup fyrir árið 2017.”

Samkvæmt íbúakönnun Gallup, sem var framkvæmd í nóvember og desember á sl. ári hefur ánægja íbúanna með þjónustu sveitarfélagsins í mörgun tilvikum vaxið milli áranna 2016 og 2017. Borgarbyggð keypti niðurstöður íbúakönnunar Gallup sem gerðar voru í nóvember og desember 2017. Alls komu 167 svör úr Borgarbyggð. Án þess að það liggi nákvæmlega fyrir þá skiptast svarendur nálægt því til helminga milli dreifbýlis og þéttbýlis. Aldurssamsetning svarenda liggur hins vegar ekki fyrir. Hér eru birtar niðurstöður könnunarinnar þar sem kemur m.a. fram samanburður á viðhorfi íbúanna milli ára. Heimild er ekki til staðar til að birta niðurstöður úr samanburði við önnur sveitarfélög.

Helstu niðurstöður eru þær að í spurningum sem varða þjónustu leikskóla, gæði umhverfisins í nágrenni við heimili svarenda, aðstöðu til íþróttaiðkunar, þjónustu við fatlað fólk, aðkomu sveitarfélagsins að menningarmálum, þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu grunnskólanna og þjónustu sveitarfélagsins í heildina litið þá er ánægja íbúanna með þessa þjónustuþætti meiri en á árinu 2016. Viðhorfið gagnvart því hve gott er að búa í Borgarbyggð, þjónustu við eldri borgara og skipulagsmálum eru óbreytt frá fyrra ári en ánægjan hefur minnkað með hver vel sveitarfélagið leysi almennt úr erindum og hvað varðar gæði þjónustu í sorphirðu. Ánægja íbúanna hefur því aukist gagnvart átta málaflokkum, hún er óbreytt gagnvart þremur en hefur lækkað gagnvart tveimur málaflokkum. Ánægja íbúa í Borgarbyggð er yfir landsmeðaltali með þjónustu í leikskólamálum, þjónustu við fatlað fólk og þjónustu við eldri borgara. Borgarbyggð er á landsmeðaltali varðandi gæði umhverfisins í nálægð heimilis svarenda en liggur undir landsmeðaltali hvað varðar aðrar spurningar. Nokkuð mismunandi er hve langt Borgarbyggð liggur undir landsmeðaltali þar sem um það er að ræða. Skipulagsmálin skera sig töluvert úr hvað það varðar. Könnunin gefur okkur verðmætar upplýsingar um hvað verður að setja í forgang um að bæta þjónustu sveitarfélagsins því starfsemi þess snýst fyrst og síðast um að veita íbúunum þjónustu á einn eða annan hátt.

Skjal með niðurstöðum könnunarinnar fylgir hér með til nánari glöggvunar.

4027842_Borgarbyggð_030118_án_samanburðar

Með góðri kveðju

Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri


Share: