Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands á ferð

september 11, 2008
Í gær, miðvikudaginn 10. september, voru nemendur á 2. ári í umhverfisskipulagi við Landbúnaðarháskóla Íslands á ferð um Borgarnes og skoðuðu ýmsan garðagróður. Meðal annars var farið í ráðhúsgarðinn þar sem Samson B. Harðarson lektor og landslagsarkítekt sýndi nemunum ýmsa runna svo sem Alaskaylli, sem verið er að skoða á meðfylgjandi mynd.
Ferðin var hluti af námi í áfanganum Plöntunotkun I – Tré og runnar, sem kenndur er á haustönn annars árs í umhverfisskipulagi við skólann. Á heimasíðu skólans, www.lbhi.is, kemur fram að nám í umhverfisskipulagi veiti hagnýtan undirbúning fyrir margvísleg störf hjá opinberum aðilum svo sem sveitarfélögum og ráðgjafafyrirtækjum. Einnig á teiknistofum landslagsarkitekta, skipulagsfræðinga, verkfræðinga og arkitekta, auk umsjónar með náttúruverndar- og útivistarsvæðum. Námið gefur góða undirstöðu til frekara náms í landslagsarkitektúr, skipulagsfræði, umhverfisfræði eða öðrum tengdum greinum, m.a. til fullgildra starfsréttinda.
Nám við umhverfisskipulagsbraut Landbúnaðarháskólans er formlega viðurkennt sem aðfararnám til landslagsarkitektúrs og skipulagsfræða við erlenda háskóla, m.a. á Norðurlöndum og í tengslum við samevrópskt samstarf. Það er Auður Sveinsdóttir landslagsarkítekt sem er brautarstjóri umhverfisskipulags við skólann og hefur átt mestan þátt í að móta þennan vinsæla námsmöguleika þar.
 
Mynd: Guðrún Jónsdóttir
 

Share: