Námskeið um gerð viðskiptaáætlana

janúar 21, 2003
Í tengslum við verkefnið “Nýsköpun 2003” sem er samkeppni um viðskiptaáætlanir, verður boðið upp á námskeið á tveimur stöðum á Vesturlandi.
Akranesi, fimmtudaginn 13. febrúar kl. 17.15 í Safnaskálanum.
Snæfellsbæ, mánudaginn 17. febrúar kl. 17.15 í Hótel Ólafsvík.
Námskeiðið, stendur frá klukkan 17:15-20:30. Fyrirlesari verður G. Ágúst Pétursson, verkefnisstjóri samkeppninnar. Þátttakendur greiða kr. 1.500.- fyrir kaffi og léttan málsverð í hléi. Einfaldast er að skrá sig á heimasíðu verkefnisins sem er www.nyskopun.is og fá skráðir þátttakendur sent leiðbeiningahefti og geisladisk með reiknilíkani og ýmsum fyrirlestrum sér að kostnaðarlausu.
Á námskeiðinu fer Ágúst yfir helstu atriði sem þarf að hyggja að við gerð viðskiptaáætlunar. Hann fjallar um lausnina (viðskiptahugmyndina) og þörf fyrir hana, markaðsgreiningu og markaðssetningu og sölu. Lítið er farið yfir fjármálin enda fá allir þátttakendur ítarleg gögn og líkan til stuðnings við fjárhagskafla viðskiptaáætlunar. Síðan er talsvert fjallað um undirbúning og verklag við gerð viðskiptaáætlana og að síðustu er fjallað lítillega um ferli fjármögnunar og fjárfestaumhverfi.
Að sögn verkefnisstjóra keppninnar hefur reynslan af fyrri námskeiðum verið mjög góð. Þátttaka hefur verið góð og reynt hefur verið að hafa námskeiðið líflegt. Ágúst vill undirstrika, að þátttaka í námskeiðum og raunar keppninni í heild kallar ekki á sérstaka reynslu eða menntun. Mestu skipti áhugi og trú á hugmyndir sínar.
Annað atriði sem Ágúst leggur áherslu á er að hvetja fyrirtækin til að vera með. Það er að hans sögn vaxandi nauðsyn á þekkingu í gerð viðskiptaáætlana innan fyrirtækjanna því fjármálastofnanir gera nú orðið ríka kröfu um að fyrir liggi viðskiptaáætlun.
En eru ekki fá fyrirtæki í beinni nýsköpun? Að sögn verkefnisstjórans felst nýsköpun ekki bara í því að finna nýja gerð að tappatogara. “Segjum að fyrirtæki ætli að herja á nýja markaði, þróa nýja vörulínu eða þjónustu eða bara endurskipuleggja og lagfæra hjá sér reksturinn. Allt er það nýsköpun að okkar mati og því fyllilega til þess fallið að setja í viðskiptaáætlun. Annar áhugaverður flötur er sá, að þegar fyrirtæki ræðst í að gera viðskiptaáætlun um starfsemina kvinka oftast þúsund nýjar og spennandi hugmyndir og menn fara að sjá hlutina í alveg nýju ljósi.”
Veitt eru vegleg peningaverðlaun fyrir bestu viðskiptaáætlanirnar sem berast í keppnina. Allir sem senda viðskiptaáætlun keppa jafnframt um að verða í hópi fjögurra aðila sem keppa fyrir Íslands hönd í sérstakri Evrópukeppni hugmynda. Einnig geta keppendur sent stutta hugmyndalýsingu og þannig freistað þess að komast fyrir Íslands hönd í Evrópukeppnina þótt ekki sé tími til að skrifa fullbúna viðskiptaáætlun.
Fyrirhugað er að að halda eitt vandað fjarnámskeið í lok febrúar, sérstaklega ætlað fólki á völdum stöðum á landinu þar sem ekki varða haldin námskeið. Að Nýsköpun 2003 standa Ný sköpunarsjóður atvinnulífsins, KPMG, Háskólinn í Reykjavík, Morgunblaðið, Íslandsbanki og Byggðastofnun. Auk þess eru Síminn, Eimskip, Samherji og Nýherji stuðningsaðilar keppninnar. Skilafrestur viðskiptaáætlana og/eða hugmyndalýsinga er til 31. maí 2003.
Nánari upplýsingar veitir G. Ágúst Pétursson, verkefnisstjóri þjóðarátaksins, í síma 896 3055 (agustp@centrum.is) . Heimasíða: www.nyskopun.is. Atvinnuráðgjöf Vesturlands, Hrefna, Vífill, Óli, og Ásthildur í síma 437-1318 ssv@vesturland.is.

Share: