Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2003

janúar 27, 2003
Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2003 var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar þann 23. janúar s.l.

Samkvæmt fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að skatttekjur ársins 2003 nemi 662 milljónum króna sem er um 8% hækkun á milli ára. Þær skiptast þannig að útsvarstekjur eru áætlaðar 427 milljónir króna, fasteignaskattur 81 milljónir króna, framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 145 milljónir króna og lóðaleiga 9 miljónir. Aðrar tekjur er áætlaðar um 240 milljónir króna.
Heildarkostnaður við rekstur málaflokka nemur tæpum 780 milljónum króna og þar af er kostnaður við rekstur leikskóla og grunnskóla tæpar 450 miljónir. Veltufé frá rekstri er rúmar 76 miljónir. Rekstraráætlunin einkennist annars vegar af hækkun launakostnaðar, en hins vegar af því að áætlunin gerir ráð fyrir að fylgt verði ýtrustu aðhaldssemi í rekstri sveitarfélagsins.
Til framkvæmda og fjárfestinga eru áætlaðar um 110 milljónir króna á árinu 2003. Þar vega þyngst áform um að leysa húsnæðisvanda grunnskólans á Varmalandi, en mikil fjölgun nemenda við skólann kallar á stærra húsnæði. Fjölgun nemenda á Varmalandi er tilkomin vegna þeirra miklu uppbyggingar sem verið hefur í tengslum við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Þá hefur sveitarfélagið keypt eignir og lóðir af Kaupfélagi Borgfirðinga í gamla bæjarhlutanum í Borgarnesi, en þar er fyrirhugað að skipuleggja íbúðarhverfi.
Samkvæmt fjárhagsáætlun Borgarbyggðar eru lántökur á árinu 2003 áætlaðar um 170 milljónir króna en að afborganir eldri lána nemi um 97 milljónum króna og skuldbreyting skammtímaskulda rúmum 40 miljónum.
Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2003 var unnin sem rammaáætlun, en það er í fyrsta skipti sem slík aðferðafræði er notuð við gerð áætlunarinnar. Markmiðið með nýjum vinnubrögðum er að þau skili betri árangri í rekstri sveitarfélagsins, stjórnendur stofnana verði meðvitaðri um útgjöld og að þeir beri meiri ábyrgð og hafi jafnframt meiri áhrif.
 
Nánari upplýsingar veitir Páll S. Brynjarsson bæjarstjóri í síma 437-1224

Share: