Námsferð tónlistarkennara haust 2018

nóvember 9, 2018
Featured image for “Námsferð tónlistarkennara haust 2018”

Kennarar Tónlistarskóla Borgarfjarðar lögðu land undir fót í lok október 2018 og fóru í námsferð til Kanarí eyja (Gran Canaria). Forsagan að því að ákveðið var að heimsækja þessa eyju er að Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri og fjölskylda hennar héldu tónleika á Kanarí  um jólin 2016 og  unnu þá með þarlendum  píanóleikara.

Í höfuðborg Gran Canaria, Las Palmas er mjög góður tónlistarskóli, Conservatorio Superior de Música de Canarias (CSMC).  Þar fer fram kennsla allt frá byrjendastigi til háskólastigs. Fyrir hádegi er kennt á framhalds- og háskólastigi en eftir hádegi eru yngri börn á grunn- og miðstigi í námi.

Á mánudeginum var skipulögð heimsókn í CSMC þar sem skólinn var skoðaður undir leiðsögn José María Curbelo González og einnig fengu kennararnir að hlýða á tónleika með nemendum á háskólastigi. Mjög fróðlegt og áhugavert. Það er greinilegt að tónlistarnám innfæddra er metnaðarfullt og nemendurnir fá mjög góða tónlistarkennslu. Einnig fengu kennarar Tónlistarskóla Borgarfjarðar rými til að æfa fyrir fyrirhugaða tónleika hópsins.

Eftir heimsóknina til CSMS var staldrað við menningarhús borgarinnar, Auditorio Alfredo Kraus, en það er nefnt eftir tenórnum Alfredo Kraus, sem var frægastur fyrir „háu C“-in sín og var einmitt frá Kanaríeyjum. Einnig var komið við í hinum merka Dal hellanna eða Barranco de Guayadeque og skoðaðir hellar sem búið hefur verið í frá tímum frumbyggjanna.

Tíminn var nýttur til æfinga, farið á Kabarettsýningu á Café del Mar, ekið um eyjuna, safnið MECIV Museo etnográfico heimsótt og komið við hjá hinum fræga kletti Roqe Nublo.

Á sunnudeginum var farið til fjallaþorpsins Valleseco. Í sveitarfélaginu Valleseco  búa ámóta margir og í Borgarbyggð, þó svo að það sé eingöngu 22 km2 að stærð en Borgarbyggð um 4.900 km2. Um fjörutíu nemendur stunda nám við Escuela de músic de Valleseco (tónlistarskólann í Valleseco) og kennararnir eru fimm. Skólinn var skoðaður og síðan voru sameiginlegir tónleikar í menningarhúsinu Auditorio Dr. Juan Díaz Rodríguez þar sem íslendingarnir fluttu og kynntu íslenska tónlist. Flutt voru íslensk þjóðlög og lög eftir Jón Múla Árnason, Megas, Sigurð Þórðarson, Sigvalda Kaldalóns og Þórarinn Guðmundsson. Einnig var flutt frumsamið lag eftir Ólaf Flosason á óbó og píanó og kórlag eftir Birnu Þorsteinsdóttur. Kanaríski píanóleikarinn José María Curbelo Gonzáles lék með í nokkrum lögum. Tónleikarnir tókust vel og virtust heimamenn kunna vel að meta íslenska tónlist. Hafði einn tónleikagestur á orði að konan sín hefði grátið nánast allan tímann því tónlistin hefði verið svo falleg. Síðan lék skólahljómsveit tónlistarskólans í Valleseco nokkur lög. Íslendingunum var einkar vel tekið og rætt um að hér væri ef til vill að hefjast samstarf milli þessara tveggja skóla. Sýndu heimamenn áhuga á að heimsækja okkar slóðir.

Það má með sanni segja að eyjan Gran Canaria hafi upp á margt fleira að bjóða en sól og sand. Kennarar Tónlistarskóla Borgarfjarðar fóru heim fróðari um tónlist og tónlistarfólk þessarar eyju suður í höfum. Þarna er fjölbreytt menning og metnaðarfullt tónlistarstarf.

Theodóra Þorsteinsdóttir

Skólastjóri

 


Share: