Meinleg villa birtist í nýlegri skýrslu

apríl 12, 2019
Featured image for “Meinleg villa birtist í nýlegri skýrslu”

Meinleg villa birtist í nýlegri skýrslu Skólavogarinnar um meðallaunakostnað í grunnskólum Borgarbyggðar. Í skýrslu Skólavogarinnar stóð að meðallaunakostnaður í Grunnskóla Borgarfjarðar væri um milljón krónum hærri á hvern nemanda heldur en í Grunnskóla Borgarbyggðar. Hið rétta er að meðallaunakostnaður á nemanda í Borgarbyggð er 1.573 þúsund krónur. Meðallaunakostnaður í Grunnskólanum í Borgarnesi er 1.440 þúsund krónur en 1.772 þúsund krónur í Grunnskóla Borgarfjarðar. Munurinn er 23% sem er mun eðlilegra í ljósi fámennra sveitaskóla annars vegar og þéttbýlisskóla hins vegar.

Mistök við úrvinnslu gagna

Þegar fyrrgreindar upplýsingar um óeðlilega mikinn mun á launakostnaði milli grunnskóla Borgarbyggðar þá óskaði starfsfólk Borgarbyggðar eftir upplýsingum og skýringum frá þeim sem höfðu unnið fyrrgreinda útreikninga og birt þá. Nýlega fékkst það svo staðfest að tölur um launakostnað hafði verið víxlað milli Grunnskólans í Borgarnesi og Grunnskóla Borgarfjarðar. Heildarlaunakostnaði í Grunnskólanum í Borgarnesi var deilt út á hvern nemanda í Grunnskóla Borgarfjarðar sem eru töluvert færri en í Borgarnesi. Svo var á hinn bóginn heildarlaunakostnaði í Grunnskóla Borgarfjarðar deilt út á hvern nemenda í Grunnskólanum í Borgarnesi (sem eru töluvert fleiri en í G.Bfj). Þannig voru útreikningarnir rangir á báða vegu og munur á meðallaunum því afar mikill milli skólanna þegar niðurstaðan var birt. Það segir sig sjálft að þegar slík mistök verða þá verður niðurstaðan mjög fjarri raunveruleikanum og allur samanburður því rangur.

Nauðsynlegt að leiðrétta skekkju

Það er alltaf slæmt þegar skekkjur eru í opinberum gögnum. Vitaskuld á að vera hægt að ganga út frá því að þær opinberu hagtölur sem birtar eru séu réttar. Þarna hafa átt sér stað mistök einhversstaðar í þessu vinnuferli sem að baki þessum upplýsingum liggja. Hagstofan safnar á rafrænan hátt saman upplýsingum um fjárhag sveitarfélaga og aðra starfsemi þeirra úr ýmsum gagnagrunnum. Þeim er safnað saman af starfsfólki Sambands íslenskra sveitarfélaga sem afhendir þær síðan Skólavoginni. Skólavogin vinnur síðan úr fyrrgreindum upplýsingum og birtir þær í þeim tilgangi að fá fram samanburði milli skóla á ýmsan hátt. Út frá þessum röngu upplýsingum hafa einhverjir nú þegar myndað sér skoðun á framtíðarskipan skólahalds í sveitarfélaginu. Í þessu ljósi er mikilvægt að því sé komið á framfæri sem víðast að í vinnslu fyrrgreindra gagna urðu mistök sem gerðu það að verkum að umræða fór að um kostnað við skólahald í Grunnskóla Borgarfjarðar sem byggði á röngum forsendum..


Share: